fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Tómas Jónsson metsölubók, og raus í gömlum köllum

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 6. mars 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skáldsaga hans Tómas Jónsson metsölubók verður kvöldsagan í Ríkisútvarpinu.

Einar Kárason skrifar:

„Og þá er bara að rita endurminningar sínar. Ég er orðinn nógu karlægur og andlega lamaður til þess að einhver fái áhuga á lífi mínu. Ég ætla að skrifa bókina: Hvernig ég varð að andlegum og líkamlegum aumingja án þess að leggja nokkuð af mörkum til þess að verða það. Kaupið metsölubók Tómasar Jónssonar, sem verið er að þýða á sjö erlend tungumál. Hann lýsir af hreinskilni og teprulaust andlegum þjáningum sínum, gamall, sjúkur og vinalaus í íbúð, sem hann hefur verið rændur, karlægur. Nærfærnisleg bók, rituð af hárfínum skilningi og þekkingu, samúð með lítilmagnanum. Bókin er viðvörun til okkar allra, sem ekki erum komin í kör. Þetta er bók handa allri fjölskyldunni. Djörf bók. Fyrir lesendum vakna margar spurningar, sem höfundur lætur ósvaraðar. Er hann í raun og veru karlægur. Var hann með brögðum sviptur íbúðinni. Er hann dadaisti. Nauðgaði hann tíu ára gamalli telpu inni í þvottapotti. Er hann kynvillingur. Er hann morðingi. Hver er Tómas. Er hann við öll. Er hann tákn íslenzku þjóðarinnar eins og hún er í dag, andlega og líkamlega karlæg. Um þessar og fleiri spurningar fáið þið að brjóta heilann með því að lesa jólabók okkar í ár: Hvernig ég varð að andlegum og líkamlegum aumingja, án þess að leggja nokkuð af mörkum til að verða það. Lesið bókina um manninn, sem skrifaði af sér kynfærin. Hún er jólabók okkar í ár.“

Höfundurinn í útvarpinu

Þessi makalausa klausa hér fyrir framan birtist skyndilega þegar langt er liðið á skáldsöguna frægu Tómas Jónsson metsölubók eftir Guðberg Bergsson, eða á síðum 209 og 210 í þessu tæplega 350 síðna verki. Því er ástæða til þess að rifja þetta upp að sagan verður á komandi vikum eða mánuðum kvöldsagan í Ríkisútvarpinu, flutt af höfundinum sjálfum, og ekki síður vegna þess að höfundurinn, sem er sprækur og hress þótt hann sé kominn á níræðisaldur, varð hér á dögunum, einu sinni sem oftar, umræðuefni tilfinningaþrunginna skrifa á netinu og samfélagsmiðlum vegna viðtals sem Rás eitt átti við hann af þessu tilefni. Og má segja að margir í því spjalli hafi dregið lítt af sér við að fara hinum óvirðulegustu orðum um höfundinn; hann var kallaður gamall nöldrari og tuðari, hrokagikkur og fordómabúnt og jafnframt fylgdu glósur um að verk hans væru ofmetin eða í það minnsta með öllu úrelt.

Örlar á smásálarskap

Skoðum þetta nánar. Í viðtalinu rausaði hann vissulega og masaði, og margt var þar gamalkunnugt, með tilheyrandi pirringi út í róttækar bókmenntakonur og annað þannig fólk sem lengst og best hefur staðið með honum og hans verkum. Auk þess sem hann sagði meðal annars að það væru bara tvær persónur til í gjörvöllum íslenskum bókmenntum, Tómas Jónsson og svo Bjartur í Sumarhúsum, og gerði jafnframt einhvern furðulegan samanburð á sjálfum sér og hinum höfundinum sem hefði lánast að skapa persónu, það er að segja Halldóri Laxness sem væri „rithöfundur“ meðan hann sjálfur væri „skáldsagnahöfundur“ – og mátti skilja að það síðarnefnda væri líklega töluvert merkilegra. Einhver hefði nú kannski leyft að minnsta kosti Agli Skallagrímssyni að fljóta með í þessari upptalningu á bókmenntapersónum íslenskum, en það var semsé ekki. Reyndar verð ég að bæta því við að mér hefur stundum fundist Guðbergur furðu spar á örlæti í garð annarra íslenskra höfunda, svo að jaðrar við smásálarskap. Þetta eru ekki persónuleg klögumál, heldur er ég að vísa til þess að jafnvel við gefin tilefni eða aðspurður hefur hann varla ekki nema eitthvað lítillækkandi að segja um bæði byrjendur, hans samtímamenn og jafnvel okkar stærstu meistara, eins og HKL og höfunda fornsagnanna. En ég ætlaði ekki að tala um það – það verður hver og einn að vega og meta sína stórmennsku.

En það breytir ekki hinu:

Ég ætlaði í tilefni alls þessa að tala um skáldsöguna umtöluðu, hina hálfrar aldar gömlu Tómas Jónsson metsölubók. Sérstaklega þar sem ég hef séð í netskrifunum sem ég gerði hér að umtalsefni, meðal annars frá ungum upprennandi höfundum og efnilegu bókmenntafólki sem lætur ummæli og sleggjudóma Guðbergs fara í taugarnar á sér, þau sjónarmið viðruð, eins og ég gat um, að nefndur höfundur hafi svosem ekkert eða lítið sem ekkert merkilegt skrifað sjálfur. Og svo hafa fylgt upplýsingar um að sá sem er að skrifa hverju sinni hafi lítið sem ekkert lesið eftir Guðberg, fundist það litla leiðinlegt sem borið hafi fyrir augu og að sá sami muni ekki nenna að leggja á sig að lesa meira. Og því er rétt að rifja upp eitthvað af snilldarverkum höfundarins grindvíska.

Ég nefndi, vegna ummæla Guðbergs í útvarpsviðtalinu, bókina um Tómas Jónsson í samhengi við Sjálfstætt fólk og Egils sögu. En það merkilega er að bókin um Tómas þolir alveg slíkan samanburð, sem má teljast allnokkuð. Bókin um Tómas er þvílík flugeldasýning af húmor og stílgaldri, hreint eldgos í persónusköpun og heimsmyndargerð, svo eitthvað sé nefnt. Að formi til er fylgt stílabókum sem gamall maður hefur skrifað með blýanti liggjandi í bælinu aleinn í sinni kjallaraíbúð – undir lok bókar er reyndar sagt frá því að ungur maður sem um hríð leigði þar í húsinu hafi fundið þessar stílabækur og vélritað þær upp. Það var „annaðhvort Hermann eða Svanur“. (Hermann og Svanur birtast mjög augljóslega báðir í bókum frá fyrri hluta höfundarferils Guðbergs sem einhvers konar alter ego hans sjálfs – eitt sinn gaf hann út bók undir dulnefninu Hermann Másson. Og því má bæta við að á einum stað í verkum Guðbergs segir Anna að kannski sé ekkert þeirra til nema í hugarheimi Svans).

Einar Kárason.

Allt um það. Í þessar stílabækur hefur Tómas párað ýmsar hugleiðingar sínar og klögumál, oft heldur sundurlaust, og að auki minningar sínar og frásögur ýmsar. Hann hefur alltaf búið einn, vann lengst af í banka en borðaði á matsölu og eru lýsingar hans og frásagnir af lífinu, starfinu og samstarfsfólkinu í bankanum oft alveg konunglegar, með persónum eins og þeim Sigurði, Ólafi og ungfrú Gerði. Langur kafli um matsöluna, þar sem sami hópur kostgangara borðar saman daglega er sömuleiðis einn konunglegur skemmtilestur; og ekki síður upprifjun um bókasöfnun Tómasar, með stórbrotnustu hugleiðingu um fornbókasala sem ég hef lesið; að auki er bókin full af frábærum innskotum, til dæmis úr „Þjóðsögum Tómasar Jónssonar“, eða frásagnir sem hann hefur skráð eftir samferðamönnum, eins og ævintýraleg lýsing á íslensku óperusöngkonunni Katrínu Jónsdóttur sem slær í gegn í Þýskalandi og kemst í náin kynni við sjálfan Adolf Hitler. Svo eru kostulegar lýsingar á alls kyns reiptogi Tómasar við leigjendur sína og meðleigjendur, meðal annars þann sem fær að æfa sig á rafmagnsgítar og Tómas verðmetur á einn fermetra.

Balsac og Tangaheimurinn

Í nefndu útvarpsviðtali sem margir létu fara í pirrurnar á sér talaði Guðbergur líka um ýmislegt merkilegt, eins og þau áhrif sem franski 19. aldar höfundurinn Balsac hefði haft á sig, en ég hef á tilfinningunni að skoði menn stakar bækur þessara tveggja höfunda blasi skyldleikinn ekki við. En það sem Guðbergur var eflaust að tala um var að Balsac, í sínum fjölmörgu verkum, skapaði sérstakan sjálfbæran skáldskaparheim; þannig er bæði hægt að lesa flokk af bókum hans sem stök verk, en líka skoða hvernig þau raðast svo saman eins og í mósíakmynd. Þar eru sömu persónur gegnumgangandi og sami söguheimur, og eitthvað sem er miðlægt í einni bók verður mikilvægt aukaatriði í annarri.

Og þetta sama á við um það sem mér finnst mikilvægast í höfundarverki Guðbergs, og er þá að tala um bækurnar frá fyrri hluta hans ferils og kenndar hafa verið við hið mjög svo Grindavíkurlega þorp Tanga, þar sem meðal annars er að finna húsin Ásgarð og Valhöll. Tómas Jónsson tengist þessum heimi, í gegnum nágranna sína eins og Önnu, Katrínu, Hermann og Svan, auk þess sem fram kemur í TJM að Björg systir Tómasar hafi búið þar og dáið; líklega fæddist hann sjálfur þar. Í Hermann og Dídí sést svo til Tómasar út um glugga á húsi í Tanga; hann er þar líklega kominn að vitja leiðis systurinnar. Auk TJM tengjast Tangaheiminum smásagnasöfnin Ástir samlyndra hjóna, Hvað er eldi guðs og Leikföng leiðans og skáldsögurnar Anna og svo þær sem hafa verið kallaðar Tangaþríleikurinn: Það sefur í djúpinu, Hermann og Dídí og Það rís úr djúpinu. Allar eru þessar bækur morandi í furðulegri snilld; ég mæli með sögunum sem tengjast Tangaheiminum í Ástum samlyndra hjóna; bæði er þar ein löng sem segir frá fjölskyldusamkomu á Tanga og svo önnur þar sem fólkið þaðan fer með áætlunarbíl til Reykjavíkur á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Mitt uppáhald er hins vegar klárlega Tangaþríleikurinn (hann var reyndar seinna endurútgefinn nokkuð breyttur frá hendi höfundar, undir nafninu Sannar sögur, en mitt val er frumgerðin). Fyrsti hluti þríleiksins, Það rís úr djúpinu, er reyndar á köflum heldur óhugnanleg lesning, og sá ofbeldisóhugnaður smitast líka inn í miðpartinn í Hermann og Dídí. Á löngum köflum er hún hins vegar einn sá mesti skemmtilestur sem íslenskur bókmenntaunnandi getur komist í, með heimsókn í frystihús staðarins og svo langa og óborganlega erfidrykkju handa þorpsfólkinu heima hjá Önnu, svo eitthvað sé nefnt. Og svo er fyrsti partur síðustu bókarinnar, Það rís úr djúpinu, algert konfekt; allir verða að lesa „Sönn saga af sálarlífi systra“.

Það duga engar afsakanir;

Hvað ég vildi sagt hafa er þetta: Það er auðvelt að skilja þá sem láta rausið og fordómana í Guðbergi Bergssyni fara í taugarnar á sér. En enginn á samt að vera svo vitlaus að láta það afstýra því að hann njóti þess að lesa þær bókmenntaperlur sem grindvíski stórmeistarinn hefur borið okkur á borð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum