Steve Bannon, sem talinn er helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, tjáði sig opinberlega í gær í pallborðsumræðum á árlegri ráðstefnu íhaldsmanna í Bandaríkjunum (Conservative Political Action Conference – CPAC) í National Harbour í Maryland-fylki.
Bannon gefur sjaldan færi á sér á opinberum vettvangi þó hann sjáist oft á myndum með forsetanum. Andstæðingar Trump líta gjarna á Bannon sem sjálfan myrkrahöfðingjann í innsta hring starfsliðs hins nýja forseta – þeir segja að Bannon standi á bak við allar umdeildustu ákvarðanir Trump.
Ákveðinnar eftirvætingar gætti í gær þegar Steve Bannon settist á hljóðskraf með Reince Priebus starfsmannastjóra Hvíta hússins, sem einnig er í starfsliði Trump. Bandarískir fjölmiðlar hafa skrifað um að grunnt sé á því góða milli þeirra tveggja í valdabaráttu sem nú sé háð í starfsliði forsetans sem er nýbúið að hreiðra um sig á æstu tindum hins pólitíska valds í einu voldugasta ríki heims. Þetta sé barátta sem meðal annars einkennist af fáti og glundroða.
Það var því rík ástæða, og til marks um mikinn áhuga á því sem Steve Bannon hefði að segja, að margar af helstu sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna sendu viðburðinn út beint. Þeir félagar Bannon og Priebus virtust hinir mestu mátar. Þeir byrjuðu á því að ræða um það hvernig andstæðingar þeirra, og þá ekki síst hinir svokölluðu meginstraums-fjölmiðlar, fjölluðu um Trump og starfslið hans:
Þið munið, kosningabaráttan [hjá okkur] átti samkvæmt lýsingum fjölmiðla að vera sú glundroðakenndasta, óskipulagðasta, og sú með mestan byrjendabrag af þeim öllum þar sem fólk hefði ekki græna glóru um hvað það væri að gera og svo sáum við þau öll vælandi og skælandi á kosninganóttinni,
sagði Bannon og uppskar fagnaðarlæti.
Ástæðan fyrir því að þetta virkaði [hjá okkur] er Trump forseti. Hann hafði hugmyndirnar, orkuna og framtíðarsýnina sem þjappaði liðsheild í kringum hann,
bæti Bannon við. Hann sagði að þrátt fyrir að fólk hefði haft ólíkan bakgrunn þá hefði Trump sameinað það í kosningabaráttunni:
Við efuðumst aldrei, og Donald Trump efaðist aldrei um að hann myndi sigra í kosningunum. Þarna liggur krafturinn í þessari hreyfingu.
Bannon sagði að fjölmiðlar og Demókratar hefðu aldrei skynjað hvað það var sem færði Trump sigurinn. Það hafi verið sú staðreynd að hann talaði til alþýðunnar, ekki síst á fjölmennum framboðsfundum á íþróttaleikvöngum:
Það lá allt í ræðunum.
Bannon sagði að krafturinn í ræðum Trump hefði náð til fólks:
Munið að við vorum blönk. Hillary Clinton og hennar lið voru með yfir tvo milljarði dollara. Við áttum kannski nokkur hundruð milljónir. Það voru þessir fundir, þessar ræður.
Stóru fjölmiðlar [mainstream media] væru enn vaðandi í villu og svíma:
Alveg eins og þeir höfðu rangt fyrir sér varðandi glundroðann í kosningabaráttunni, alveg eins og þeir höfðu rangt fyrir sér um glundroðann við valdaskiptin [þegar Trump tók við] – þeir eru algerlega í tómu rugli með það sem nú er að gerast.
Bannon sagði að Trump myndi standa við það sem hann hefði lofað í kosningabaráttunni:
Öll þessi loforð verða efnd.
Að sögn Steve Bannon mun Donald Trump skipta forgangsverkefnum stjórnar sinnar í þrjá þætti. Í fyrsta lagi væri það efhagsleg þjóðernisstefna, síðan öryggi ríkisins og svo það sem hann kallaði „niðurbyggingu stjórnsýslu ríkisins.“ Með því síðastnefnda mun hann hafa átt við breytingar á sköttum, reglugerðum og viðskiptasamningum sem Trump og ráðgjafar hans telja að standi efnahagslegum vexti og sjálfstæði borgaranna fyrir þrifum.
Bannon er greinilega hrifinn af því sem hann kallar „efnahagslega þjóðernisstefnu.“ Í pallborðinu á CPAC-fundinum lýsti hann því yfir að eitt það mikilvægasta sem gerst hefði eftir að Trump tók við embætti forseta væri undirritun tilskipunarinnar um úrsögn landsins úr TPP, viðskiptasamningi Kyrrahafsríkja (Trans-Pacific Partnership).
Tólf Kyrrahafsríki áttu aðild að samningnum en einungis eitt hafði samþykkt hann þegar Bandaríkin drógu sig út.
Ég tel að þetta hafi verið eitt af mest afgerandi augnablikum í seinni tíma sögu Bandaríkjanna. Þar losnuðum við undan viðskiptasamning og endurheimtum fullveldi okkar.
Aftur sagði Bannon að meginstraums-fjölmiðlarnir skildu þetta ekki. Þeim væri stjórnað af alþjóðasinnum og á valdi stórfyrirtækjanna, fullir af heift gegn þeirri efnahagslegu þjóðernisstefnu sem Donald Trump stæði fyrir. Nú væri búið að leysa ótrúlegan kraft og hugmyndauðgi úr læðingi þar sem fólk væri að koma á tvíhliða viðskiptasamböndum sem myndu færa Bandaríkjunum nýja stöðu á sviði verslunar og viðskipta og skapa ný störf.
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun ávarpa ársfund íhaldsmanna í kvöld.
Samtal Bannon og Priebus í heild sinni í gær: