Eins og rakið hefur verið hér á Eyjunni þá fór Donald Trump Bandaríkjaforseti um víðan völl í ræðu sinni á Melbourne-flugvelli við Orlando í Flórída-fylki í gærkvöldi. Fjölmiðlar hér á Íslandi hafa margir hverjir verið uppteknir af því að hann minntist á Svíþjóð í ræðu sinni og fjallað fátt um annað sem forsetinn sagði.
Engin athygli hefur hins vegar beinst að því sem Bandaríkjaforseti sagði um málefni flóttamanna í Sýrlandi. Þetta sagði hann:
Ég vil koma upp öruggum svæðum í Sýrlandi og á fleiri stöðum þar sem fólkið getur verið og lifað í öryggi þar til borgir þeirra og heimalönd sem eru í rúst eins og Obama og hin skildu við þau handa mér. Vinir, við sitjum uppi með glundroða eftir þetta lið sem þið mynduð ekki trúa.
Síðan kom forsetinn aftur að því sem hann kallaði „örugg svæði:“
En við ætlum að koma upp svona öruggum svæðum og við ætlum að láta ríkin við Persaflóa borga fyrir þau því þau eiga ekkert nema peninga. Við ætlum að gera það þannig.
Trump hefur áður nefnt hugmyndina um „örugg svæði“ í Sýrlandi og sýnist sitt hverjum um ágæti þeirra. Bashar-al Assad Sýrlandsforseti hefur meðal annars vísað henni á bug og sagt að þetta sé óraunhæft.
Hins vegar er það nýtt að Donald Trump hyggist láta lönd á borð við Sádi-Arabíu og önnur olíuríki við Persaflóa standa straum af kostnaðinum við þau. Óljóst er hvort þau taki slíkt í mál.
Upptaka af ræðu forsetans er hér fyrir neðan. Ummæli hans um Sýrland og „öruggu svæðin“ hefjast á tímanum 37:37.
https://www.youtube.com/watch?v=AdAavj__vvE