Skúli Mogensen forstjóri og aðaleigandi flugfélagsins WOW AIR var gestur í þættinum Eyjunni hjá Birni Inga Hrafnnsyni á sjónvarpsstöðinni ÍNN í gærkvöldi. Þar fór Skúli yfir stöðu félagsins og helstu framtíðaráform.
Fjölmargt áhugavert kom viðtalinu.
Björni Ingi ræddi mikinn og hraðan vöxt WOW AIR á undanförnum árum. Velgengni félagsins minnir á önnur lággjaldafélög sem hafa átt góðu gengi að falla í samkeppni við gömul og rótgróin félög. Þar er hið norska Norwegian eitt dæmi. Eins og greint var frá í frétt á Eyjunni fyrir nokkrum dögum þá er Norwegian nú orðið stærra en SAS reiknað í fjölda farþega.
Í þessu samhengi rifjaði Björn Ingi upp að Viðskiptablaðið hefði fyrir nokkrum árum greint frá því að Skúli hefði sagt undir rós á starfsmannafundi í WOW AIR að innan fárra ára yrði félagið orðið stærra en Icelandair. Björn Ingi sagði svo:
Það voru einhverjir sem hlógu að þessu. Heldur þú að þetta geti gerst? Fyrir Íslendinga er þetta náttúrulega meiriháttar tilhugsun, sjokk ef svo má segja, vegna þess að Icelandair er ekkert smá félag í augum Íslendinga,
Skúli svaraði:
Ég tel verulegar líkur á því að við verðum með fleiri farþega en Icelandair strax á næsta ári. Það er hins vegar ekkert markmið í sjálfu sér að verða stærri en Icelandair. Ég hef látið það líka flakka að það er ágætt að stefna að því að verða Íslandsmeistari en ég hef miklu meiri áhuga á að verða heimsmeistari. Þess vegna er ég að horfa á Norwegian með þeirra 155 vélar og þeir verða með 178 vélar á næsta ári. Þannig að þegar við erum að bera okkur saman við önnur flugfélög þá erum við að horfa á fremstu lággjaldafélögin í heiminum og læra af þeim og skoða hvernig þau eru að vaxa og hvaða ákvarðanir þau eru að taka. Fyrir vikið erum við að fara erlendis líka. Það er afleiðing af því, að við erum að verða stærri en Icelandair, en það er ekkert markmið í sjálfu sér.
Forstjóri WOW AIR sagði að árin frá stofnun félagsins væru nánast linnulaust frá upphafi búin að vera ævintýralegur tími.
Hér má horfa á viðtalið við Skúla Mogensen á Eyjunni á ÍNN:
https://vimeo.com/204420848