Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur útbúið drög að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki og er umsagna um stefnuna óskað.
Eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhluti í, og Bankasýsla ríkisins fer með samkvæmt lögum, var sett fram árið 2009 og tók þá til nýju viðskiptabankannna þriggja og nokkurra sparisjóða sem þá voru að hluta til í eigu ríkissjóðs. Hún gildir nú fyrir fjögur fjármálafyrirtæki: Landsbankann, Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóð Austurlands.
Eigandastefnan endurspeglaði stöðuna eftir endurreisn fjármálakerfisins og aðstæður í ríkisfjármálum og á fjármálamarkaði á þeim tíma. Staða hagkerfisins og ríkisfjármála er nú gjörbreytt til hins betra. Einnig hefur eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum tekið grundvallarbreytingum og á ríkið nú meirihluta bankakerfisins. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gefið út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti ríkisfyrirtækja. Því er orðið tímabært að uppfæra eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins, segir í drögum að stefnunni.
Samkvæmt þeim falla niður ýmsar áherslur sem mótaðar voru í kjölfar endurreisnar fjármálakerfisins. Í stað þeirra er lögð áhersla á að fjármálafyrirtæki veiti viðskiptavinum sem skilvirkasta þjónustu og tryggi ásættanlega arðsemi. Skerpt er á ákvæðum um stjórnarhætti, upplýsingagjöf, gagnsæi og fagleg vinnubrögð. Undirstrikuð er sú skylda stjórna að fara að ákvæðum eigandastefnunnar og upplýsa eiganda í þeim tilvikum sem slíkt er ekki talið hægt eða ef stjórn verður þess áskynja að ekki hefur verið farið eftir þeim.
Skilgreind eru markmið um einstök fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og eignarhald þeirra:
Landsbankinn hf. (98,2% eignarhlutur ríkisins)
Íslandsbanki hf. (100% eignarhlutur ríkisins)
Arion banki hf. (13% eignarhlutur ríkisins)
Sparisjóður Austurlands hf. (49,5% eignarhlutur ríkisins)