Janne Haaland Matlary prófessor í alþjóðlegum stjórmálum við Háskólann í Ósló og fyrrum ráðuneytisstjóri í norska utanríkisráðuneytinu varar evrópska stjórnmálaleiðtoga við því að ganga og langt í gagnrýni á Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta gerði hún í innsendri grein í norska viðskiptadagblaðinu Dagens Næringsliv í gær.
Matlary telur að evrópskir stjórnmálaleiðtogar séu nú á góðri leið með að rústa tengslum landa sinna við Bandaríkin með vanhugsuðum ummælum í garð nýrra stjórnvalda þar í landi. Þetta segir hún „fáránlega heimskulegt“:
Fyrst að Evrópa hefur ekki hugsað sér að bera ábyrgð á sínu eigin öryggi, þá verður að hlúa sem best að tengslunum við Trump [og stjórn hans]. Trump kemur til með að gera miklu meiri kröfur til Evrópu heldur en Barack Obama. Í ljósi þessa er fáránlega heimskulegt að móðga hann eins mikið og mögulegt er áður en fólk hefur einu sinni náð að hittast.
Síðan bætir hún einnig við:
Þú og ég sem einstaklingar getum sagt hvað sem okkur finnst um Trump, en slíkt á ekki við um þann sem tjáir sig fyrir hönd ríkis.
Í grein sinni tiltekur Matlary ummæli sem Angela Merkel kanslari Þýskalands og Donald Tusk forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins hafa látið falla vegna Donalds Trump. Í fyrsta samtali Angelu Merkel við Trump messaði hún yfir Bandaríkjaforseta um flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Tusk hefur sagt að Trump sé ógn við Evrópusambandið.
Væri ég Trump og fengi skilaboð um að ég væri ógn við ESB myndi ég afþakka samskipti við slíka bandamenn. Ég hefði orðið bálreið út í Tusk og mjög pirruð í garð Merkel og litið svo á að ESB sé fjandsamleg samtök sem ég muni allavega ekki heimsækja.
Matlary telur að margir evrópskir stjórmálaleiðtogar hafi látið gagnrýnisraddir og tilfinningaleg upphlaup í sínum heimalöndum haft áhrif á sig til að ráðast harkalega gegn Bandaríkjaforseta.
Að sjálfsögðu eigum við ekki að láta hjá líða að setja fram gagnrýni þegar málefnalegar ástæður eru til slíks, en ábyrgir leiðtogar geta ekki leyft sér að láta stjórnast af tilfinningum eins og við höfum orðið vitni að. Með yfirlýsingum sínum hefur Donald Tusk skaðað möguleika á diplómatískum samskiptum við Bandaríkin. Þetta er mjög vanhugsað því nú verðum við þvert á móti að gera eins gott úr stöðu mála og kostur er með því að byggja brýr til hinna ábyrgu afla í stjórnkerfi Trump.
Eins og kunnugt er þá hafa íslenskir stjórnmálamenn gengið langt í gagnrýni sinni á Donald Trump allar götur síðan hann var kjörinn 45. forseti Bandaríkjanna í nóvember á síðasta ári. Þá skrifaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður til dæmis á Twitter-síðu sína:
Ég trúði einlæglega að Trump gæti ekki unnið og að hatrið myndi ekki vinna valdamesta embætti í heimi. Það gerðist. Orðlaus og miður mín.
— Áslaug Arna (@aslaugarna) November 9, 2016
Fleiri þingmenn tjáðu sig með svipuðum hætti. Oddný G. Harðardóttir þingmaður og fyrrum formaður Samfylkingarinnar sagðist hafa grátið þegar Trump náði kjöri og skrifaði það í færslu á Facebook:
Nýverið hefur Donald Trump svo verið kallaður „fasisti“ úr ræðustól Alþingis og áhyggjum lýst yfir því að hann sé bæði kynþátta- og kvenhatari. Nú liggur einnig fyrir þingsályktunartillaga til afgreiðslu í þinginu. Í henni er er lagt til að Alþingi fordæmi Bandaríkjaforseta fyrir „fordæmalausa mannfyrirlitningu og fordóma.“