Eins og stór hluti Íslendinga hef ég notað Facebook. Ekki mjög mikið reyndar, en ég hef meira og minna haft þá reglu að samþykkja flesta sem vilja gerast vinir mínir. Þannig hefur vinahópurinn orðið ansi stór. Þetta þýðir reyndar að ég er ekki mikið að skrifa um einkamál mín á Facebook – enda svosem ekki ástæða til – en í gegnum þetta hefur maður náð sambandi við margt fólk og haldið sambandi við aðra.
Það sem er mikilvægast finnst mér eru sambönd við vini í útlöndum. Maður hafði misst sjónar af mörgum þeirra – náði jafnvel að endurnýja kynnin í gegnum Facebook.
Í dag eru gerðar viðamiklar breytingar á Facebook. Þær virðast mælast heldur illa fyrir eins og sjá má í þessari frétt CNN.
Hjá mér virkar þetta hins vegar einfaldlega þannig að mér hefur verið skutlað út af Facebook. Þegar ég ætlaði að fara þangað inn í dag fékk ég þá meldingu að Facebook-síðunni minni hefði verið lokað.
Kannski er vitleysa hjá manni að nota samskiptaforrit af þessu tagi, ef hægt er að loka fyrir efni sem maður hefur safnað saman á löngum tíma með einni handahreyfingu einhvers staðar í útlöndum. Því þetta er vissulega bagalegt. Ég hef sent kvörtun út í heim – en ekki veit ég hver er að meðhöndla hana ef þá einhver. Er það maður eða vél? Það er pínu kafkaískt. Það var beðið um afrit af persónuskilríkjum.
Konan mín segir að ég sitji hérna og dofni og dofni smátt og smátt. Kannski er maður ekki til lengur ef maður er ekki á Facebook?
Hvað segið þið – er Google+ að virka?