Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, sagði hinu svarta hagkerfi á Íslandi stríð á hendur í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi.
Hann lýsti því að sem fjármálaráðherra myndi hann beita sér fyrir frekari rannsókn á aflandsundanskotum og aðgerðum til þess að hindra þau.
„Jafnframt mun ég undirbúa löggjöf til þess að þrengja að svarta hagkerfinu þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé og allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg,“ segir Benedikt á fésbókarsíðu sinni.
Misjöfn viðbrögð
Ekki eru allir á eitt sáttir um yfirlýsingar Benedikts. Þannig segist bankamaðurinn fyrrverandi, Ragnar Önundarson, ánægður með þær. „Það er mjög virðingarvert að fjármálaráðherra skuli vilja taka ,,svarta hagkerfið“ föstum tökum. Ferðabransinn er gróðrarstía skatt- og lífeyrissvika, svo ætla má að vandinn fari vaxandi,“ segir Ragnar.
„Krónan er hins vegar ,,lögeyrir“ landsins og því vandséð að unnt sé að ,,banna“ notkun hennar,“ bætir hann við.
Erna Ýr Öldudóttir, viðskiptafræðingur og fv. formaður framkvæmdaráðs Pírata, er hins vegar lítt hrifin:
„Þessi hugmynd er sú alversta sem ég hef nokkurntíman séð,“ segir hún og setur fram nokkra spurningapunkta af þessu tilefni:
„1. Fær einhver laun í reiðufé? Til hvers að banna það þá? Má banna notkun reiðufjár?
2. Það er leiðinlegt að segja það en að þvinga almenning með lögum til að eiga í viðskiptum við einkafyrirtæki, eins og t.d. Borgun eða bankana, minnir á fasismann í gamla daga, þar sem að ríkisvaldið og fyrirtækin runnu saman í eitt.
3. Hvað með borgararéttindin friðhelgi einkalífsins og samningsfrelsi? Á að taka þau af okkur öllum, endanlega?
4. Munu eigendur bankanna og kortafyrirtækjanna þá græða óendanlega í krafti ríkisvaldsins, en hafa að auki allar upplýsingar um einkalíf fólks?
Ég er dauðhrædd við þessa hugmynd og krefst þess að fjármálaráðherra og ný ríkisstjórn leggi eitthvað á sig við að finna leiðir til að stemma stigu við skattsvikum, aðrar en alræði,“ segir Erna Ýr.