Norska stórblaðið Verdens Gang sem er einn stærsti og áhrifamesti fjölmiðill Noregs skilgreinir Pírata á Íslandi sem einn af lýðskrumsflokkum Evrópu.
Píratar eru þannig eini skilgreindi lýðskrumsflokkurinn á Norðurlöndum. Verdens Gang setur Pírata í hóp með „hægri öfgaflokkum“ á borð við UKIP í Bretlandi, Þjóðfylkinguna í Frakklandi, Frelsisflokkinn í Hollandi, Podemos á Spáni, Valkost fyrir Þýskaland í Þýskalandi, Frelsisflokkinn í Austurríki, Fimm stjörnu fylkinguna á Ítalíu og Syriza í Grikklandi.
Verdens Gang skrifar að Píratar á Íslandi hafi verið stofnaðir árið 2012 af aðgerðasinnum, stjórnleysingjum og fyrrum tölvuþrjótum. Flokkurinn hafi verið efstur í skoðanakönnunum fyrir þingkosningar á Íslandi í október 2016 en endað í 14,5 prósentum greiddra atkvæða. Verdens Gang segir að Píratar séu lýðskrumsflokkur en þó hvorki til hægri né vinstri. Flokkurinn sé leiddur af ljóðskáldinu Birgittu Jónsdóttur.
Tilefni þess að Verdens Gang leggst í þessar pælingar er að blaðið beinir athygli að því í grein sem birtist á vef þess að Frelsisflokkurinn í Hollandi sem sé lýðskrumsflokkur undir formennsku hins umdeilda íslamsandstæðings Geert Wilders, geti nú hæglega unnið sigur í hollensku þingkosningunum í mars og náð 34 af 150 sætum í þinginu.
Geert Wilders hefur líkt Kóraninum við Mein Kampf eftir Adolf Hitler og ítrekað verið dreginn fyrir dóm ákærður fyrir boðun kynþáttahaturs. Verdens Gang skrifar að Frelsisflokkur Wilders leiði nú allar skoðanakannanir í Hollandi.
Fyrirsögn greinar blaðsins hljóðar svo yfir stórri mynd af Geert Wilders:
Hann getur orðið „næsti Trump“
Norðmenn telja þannig að Geert Wilders og Donald Trump eigi fleira sameiginlegt en athygli verðar hárgreiðslur. Verdens Gang hefur eftir hollenskum stjórnmálafræðing sem hefur sérhæft sig í lýðskrumsflokkum að Trump og Wilders tali báðir um vonda „elítu“ sem hunsi og misnoti almenna borgara. Báðir séu miklir þjóðernissinnar haldnir sterkri útlendingaandúð. Íslam sé höfuðóvinur Wilders á meðan Trump heyji sína baráttu gegn Mexíkönum. Báðir þessir stjórnmálamenn skipi þjóðum sínum í andstæðar fylkingar. Þeir séu einnig hvor fyrir sig duglegir að notfæra sér samskiptaforritið Twitter því þeir álíti að hefðbundnum fjölmiðlum sé ekki lengur treystandi til að fara með rétt mál.
Lýðskrumsflokkar Evrópu eru taldir eiga viðburðaríkt og hugsanlega fengsælt ár framundan. Ástæðan er sú að á árinu verður gengið til kosninga vítt og breitt um álfuna þar sem lýðskrumarar og snákaolíusölumenn geta látið ljós sín skína.
Þann 15. mars eru þingkosningar í Hollandi. Frakkar ganga til forsetakosninga 23. apríl. Einhvern tímann milli 24. ágúst og 22. október verða haldnar Sambandsþingkosningar í Þýskalandi. Í september er fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Katalónía eigi að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni og loks verða Stórþingskosningar í Noregi þann 11. september.