Flugfélagið WOW-Air hefur sótt um leyfi til að fljúga sex sinnum í viku milli Íslands og Ísraels. Verður þá flogið til Ben Gurion alþjóðavallarins í Tel Aviv og Keflavíkurflugvallar.
Beðið er eftir leyfi frá ísraelskum flugmálayfirvöldum, að sögn ísraelska miðilsins Yediot Ahronot. Er áætlað að flugið hefjist í júní sumar.
WOW-Air hefur ekki tilkynnt opinberlega um fyrirætlanir sínar í Ísrael hér á landi, en hugmyndin er ekki aðeins að auka straum ferðamanna milli Ísraels og Íslands, heldur einnig að auka hlutdeild WOW á flugleiðinni milli Ísraels og Norður Ameríku.
Segir ennfremur í frétt ísraelsku fréttaveitunnar, að farþegar sem koma með flugi til Keflavíkur frá Tel Aviv geti annað hvort valið um dvöl á Íslandi eða fljúga áfram þaðan til níu áfangastaða í Kanada og Bandaríkjunum. Þeir eru Montreal, Toronto, Boston, New York, Washington D.C., Pittsburgh, Miami, Los Angeles og San Francisco.