Theresa May forsætisráðherra Bretlands segir það ekki koma til greina að Bretland verði áfram aðili að innri markað Evrópusambandsins, ef svo yrði væri landið ekki í raun að ganga úr ESB. Þetta sagði May í ræðu sinni í morgun, en ræðunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Sagði May að það væri svo í höndum þingsins að kjósa um samninginn milli breskra stjórnvalda og ESB, en gert er ráð fyrir að samningaviðræðurnar hefjist í lok mars þegar grein 50 Lissabonsáttmálans verður virkjuð. Búast má við að samningaviðræðurnar taki rúmlega tvö ár.
Verkamannaflokkurinn segir áætlun May um að yfirgefa innri markaðinn og leggja áherslu á að herða innflytjendalöggjöf sé „hættuleg“. BBC hafði eftir Jeremy Corbyn leiðtoga Verkamannaflokksins að það sé nauðsynlegt fyrir vinnandi Breta að hafa opinn aðgang að innri markaði Evrópu.
Áætlun May gerir ráð fyrir að gengið verði úr ESB í áföngum, meðal þess sem Bretar vilja ná út úr samningum við ESB eru opin landamæri við Írland, fríverslunarsamningur við ESB, áframhaldandi samvinna löggæslustofnana sem og hert innflytjendalöggjöf og fríverslunarsamningar við önnur ríki utan ESB;
„Þetta samkomulag mun tryggja eins frjálsa verslun vöru og þjónustu milli Bretlands og aðildarríkja ESB og hægt er. Þetta ætti að gefa breskum fyrirtækjum jafn mikið frelsi til að versla og starfa á Evrópumarkaði og leyfa evrópskum fyrirtækjum að gera slíkt hið sama í Bretlandi. En ég tek það skýrt fram: það sem ég boða þýðir ekki aðild að innri markaðnum,“
sagði May í ræðu sinni:
Báðar hliðar sögðu það skýrt í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar að atkvæði með því að yfirgefa ESB væri atkvæði með því að yfirgefa innri markaðinn.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is