fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Eyjan

Nokkrir molar um Engey plús Proppé

Egill Helgason
Fimmtudaginn 5. janúar 2017 21:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ýmislegt sögulegt við myndun ríkisstjórnarinnar sem væntanlega lítur dagsins ljós eftir helgina, Engeyjarstjórnina eins og farið er að kalla hana – plús Proppé.

Nefna má að þetta er fyrsta ríkisstjórnin síðan 1989-1991 að með er stjórnmálaflokkur sem ekki telst til hins hefðbundna fjórflokks. Bæði Viðreisn og Björt framtíð eru utan þeirrar skilgreiningar. Þá var það Borgaraflokkurinn.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 1971 að nýr flokkur, sem hefur ekki setið áður á þingi, fer beint í ríkisstjórn án viðkomu í stjórnarandstöðu. Þá var það Samtök frjálslyndra og vinstri manna, nú er það Viðreisn.

Ef Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður ráðherra, sem verður að teljast líklegt, bætist hún í hóp ráðerra ráðherrann sem hafa gengt embætti fyrir tvo stjórnmálaflokka. Þorgerður Katrín var áður menntamálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Frægasta dæmið er Hannibal Valdimarsson var ráðherra fyrir Alþýðubandalagið 1956-1958 og fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971-1973. Áður hafði Hannibal reyndar líka verið formaður Alþýðuflokksins – svo ótrúlegur var stjórnmálaferill hans og klofingssaga.

Nokkuð annars eðlis eru nýlegri dæmi,  Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir voru ráðherrar fyrir bæði Alþýðuflokk og Samfylkingu, en þar er um það að ræða að fyrri flokkurinn rann inn í hinn síðari, og Steingrímur J. Sigfússon var fyrst ráðherra fyrir Alþýðubandalagið og síðar fyrir Vinstri græn.

Það er talað um að ráðherraskiptingin verði eftirfarandi: Sjálfstæðisflokkur fimm, Viðreisn þrír, Björt framtíð tveir. Sjálfstæðisflokkurinn fær semsagt jafnmarga ráðherra og hinir flokkarnir samanlagt. Það er nokkuð hátt hlutfall í sögulegu samhengi. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks byggðu oftastnær á helmingaskiptum, í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á viðreisnartímanum voru hlutföllin yfirleitt 4-3 þótt Alþýðuflokkurinn væri miklu minni.

Sjálfstæðisflokkurinn er í ákveðnum vanda vegna þess að í þingliðinu eru fáar konur í fremstu víglínu, en flokkurinn kemst varla upp með annað en að hafa konur í tveimur ráðherraembættum af fimm. Ólöf Nordal er enn í veikindaleyfi en ætti að vera sjálfsagt ráðherrefni – en hver verður hin konan? Bryndís Haraldsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Sigríður Andersen, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir? Engin þessara kvenna var í efstu sætum lista í kosningunum og engin þeirra getur gert sterkt tilkall til ráðherradóms.

Björt framtíð er ekki með nema fjóra þingmenn. Svo fámennur flokkur hefur sjaldan verið í ríkisstjórn. Tveir þingmannanna verða væntanlega ráðherrar, þar er talað um Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttur. En þá verður heldur þunnskipað í þingliði flokksins, svo mjög að erfitt verður fyrir flokkinn að starfa í þinginu. Óttarr og Björt gætu náttúrlega kallað inn varamenn og einbeitt sér að ráðherradómi.

Þingmeirihlutinn er aðeins einn maður, svo þingmenn og ráðherrar verða að gjöra svo vel að mæta í atkvæðagreiðslur. Það er líka hugsanlegt að stjórnin þurfi að vera viðbúin að semja við stjórnarandstöðuflokka í meira mæli en hefur tíðkast – í því sambandi gæti liðkað til að gera þingmenn úr stjórnarandstöðunni að formönnum þingnefnda.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“