fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Stærsti klofningur í sögu Sjálfstæðisflokksins

Egill Helgason
Miðvikudaginn 7. september 2016 18:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er endanlega staðfest að Viðreisn er nánast hreinræktað klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki. Flestir frambjóðendur sem hafa verið tilkynntir hingað til hafa starfað í Sjálfstæðisflokknum á einhverju tímabili eða stutt hann – en liðsmennirnir tveir sem bætast við í dag eru hvorki meira né minna en fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi varaformaður.

Þorsteinn Pálsson ætlar reyndar ekki í þingframboð (það gerir sonur hans Páll Rafnar Þorsteinsson), en hann er genginn í Viðreisn. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í heil átta ár, frá 1983 til 1991, átti reyndar alltaf erfitt uppdráttar sem slíkur. Það var tími átaka í flokknum og honum lauk ekki fyrr en Davíð Oddsson felldi Þorstein úr formannsstóli 1991.

Þorsteinn var forsætisráðherra 1987 til 1988, en svo var hann sjávarútvegsráðherra 1991 til 1999.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 2005 til 2010, menntmálaráðherra frá 2003 til 2009. Hún hvarf úr pólitík vegna hrunmála sem tengdust eiginmanni hennar – það var reyndar áberandi á þeim tíma að konur í stjórnmálum fengu verri útreið en karlarnir.

Þau eru semsagt bæði stórkanónur úr flokknum – þetta er alvarlegasti klofningur Sjálfstæðisflokksins fyrr og síðar. Þessi klofningur er hugmyndalegs eðlis, stærstu dæmin um klofning í flokknum í seinni tíð, þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn og þegar Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn, snerust fyrst og fremst um persónuleg átök. Hið sama er að segja um Frjálslynda flokk Sverris Hermannssonar, þótt síðar hafi hann fundið sér stað í baráttunni gegn kvótakerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn var á sínum tíma myndaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Það gerðist 1929. Þeir sem hafa áhuga á sögu gætu kannski sagt að þarna séu þessar fylkingar að renna sundur aftur, næstum níutíu árum síðar. Kannski er það einföldun. En Viðreisn er augljóslega alþjóðasinnaðri en Sjálfstæðisflokkurinn er nú – þar hefur þjóðernissinnað íhald sótt mjög fram síðustu árin og verið sérlega fyrirferðarmikið á landsfundum. Sú hugmynd hefur orðið fjarlægari að Sjálfstæðisflokkurinn geti rúmað mestallt litróf stjórnmálanna hægra megin við miðjuna.

Svo er spurning hvert Viðreisn sækir fylgi sitt? Með alla þessa fyrrverandi Sjálfstæðismenn í framboði ætti flokkurinn tæplega að hafa mikla skírskotun út á vinstri væng. Er Viðreisn til dæmis líkleg til að vilja gera stórbreytingar á kvótakerfinu? En flokkurinn tekur frá Sjálfstæðisflokknum alla von um að vinna kosningasigur í haust, fylgi hans verður að öllum líkindum enn lægra en í kosningunum fyrir fjórum árum en það var næst lélegasta kosning í sögu Sjálfstæðisflokksins. Viðreisn er að reynast flokknum miklu stærri og erfiðari biti en horfur voru á þegar Benedikt Jóhannesson fór fyrst á stúfana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði