fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Svæsin prófkjör

Egill Helgason
Laugardaginn 10. september 2016 14:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við erum að horfa á býsna harða prófkjörsbaráttu núna um helgina. Hjá Sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi og Kraganum fer hún fram undir yfirborðinu, en brýst þó aðeins upp samanber þessi skrif Ásdísar Höllu Bragadóttur frá því í gær en þar er talað um að konur sem sitja á þingi fyrir flokkinn standi höllum fæti.

En hjá Samfylkingu og Pírötum er baráttan orðin virkilega svæsin. Átökin milli stuðningsmanna Össurar Skarphéðinssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sjóða upp úr með ásökunum um að Össur hafi, í prófkjöri fyrir fjórum árum, verið að smala innflytjendum og jafnvel lofað þeim ríkisborgararétti fyrir að kjósa sig.

Málavextir eru reyndar mjög óljósir – og kannski ekki síst spurning hvernig svona kemur upp þegar prófkjörið er þegar hafið. Það er augljóst að þarna er tilraun til að hafa áhrif á úrslit þess, að láta prófkjörið fara að snúast um þessar ávirðingar

Baráttan verður enn harammari vegna þess að miðað við skoðanakannanir er Samfylkingin ekki með nema tvo þingmenn samanlagt í Reykjavíkurkjördæmunum. Össur hefur lifað af mörg prófkjör, stuðningsmenn Sigríðar eru býsna harðskeyttir eins og sást þegar hún fór gegn Árna Páli Árnasyni á sínum tíma. Líklega skaða þessi átök flokkinn sjálfan fyrst og fremst.

Björn Bjarnason, enginn sérstakur vinur Samfylkingarinnar, skrifar um þetta á vef sínum:

En, hvaða frambjóðandi er þetta sem fólk átti að kjósa? spyr Jakob Bjarnar blaðamaður á Vísi.

„Þetta fólk sem ég lét hringja í átti allt að kjósa Össur Skarphéðinsson. Og þá var hann utanríkisráðherra. Það átti að kjósa hann í 1. sæti,“ svarar Helga Vala en segist ekki væna Össur um að hafa lofað þessu.

Hvers vegna þykir þetta fréttnæmt núna? Til að sýna Össur í undarlegu ljósi. Þess er ekki getið hvort Víetnamarnir hafi fengið ríkisborgararétt eftir almennri leið eða með lögum frá alþingi.

Og svo er það mál Píratanna í Norðvesturkjördæmi. Þar hafa komið fram ásakanir um að Birgitta Jónsdóttir hafi verið með fingurna í prófkjöri. Píratar bregðast illa við þessum ásökunum og hafa uppi hávaða um fjölmiðla sem séu andsnúnir sér eða jafnvel í samsæri gegn sér. En mergurinn málsins er auðvitað sá að þarna er helsti foringi Píratanna sökuð um svipað athæfi og þeir hafa talað í sífellu um að einkenni gömlu og væntanlega ónýtu stjórnmálaflokkanna. Þetta er semsagt spurning um tvískinnung.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, var í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Á mbl.is birtist endursögn af því sem fór fram í þættinum. Orð Ástu eru býsna athyglisverð. Hún viðurkennir að prófkjörið í Norðvesturkjördæmi sé klúður, menn séu ekki sáttir við það innan Píratahreyfingarinnar. En svo segir hún um Birgittu og aðkomu vinnustaðasálfræðings til að bæta samskipti við hana:

Þegar Ásta var spurð hvort Birgitta sjálf væri rót sam­skipta­vand­ans, sagði hún að því mætti velta fyr­ir sér. „Ég á alltaf í mjög góðum sam­skipt­um við Birgittu en oft er það þannig með fólk sem er mjög skap­andi og með hugs­un út á við að það seg­ir svo­lítið margt. Maður þarf stund­um að spyrja: „Hvað ertu að meina með þessu?“,“ sagði hún. „Mín sam­skipti við Birgittu hafa nán­ast að öllu leyti verið mjög já­kvæð, ekki síst eft­ir að við feng­um vinnustaðasál­fræðing við að búa til ferla til að gera grein­ar­mun á upp­lif­un okk­ar á orðum fólks og því sem mann­eskj­an var virki­lega að segja.“

Pawel Bartozek er vitaskuld er í framboði sjálfur fyrir Viðreisn, en hann hefur hrósað Pírötum mikið og talað um mikilsvert framlag þeirra til lýðræðisins. Það er mikið til í því, Píratar leita leiða til að stunda stjórnmál á vitrænan hátt á tíma þegar fólk er orðið afhuga því að starfa innan hefðbundinna stjórnmálaflokka, virknin minnkar og vantraustið eykst, en lýðræðið er óneitanlega í ákveðinni krísu vegna þess. En Pawel skrifar á Facebook og segir að tal um að fjölmiðlar séu í samsæri gegn Pírötum sé álíka fjarstæðukennt og að Soros hafi ætlað að fella Sigmund Davíð:

Mér þykir alveg vænt um marga Pírata sem fólk og kann að meta framlag flokksins til stjórnmállanna í heild eins og ég hef sagt. En að lesa spjallþræðina þeirra núna þar sem fjölmargir ætla sér að taka á þessu Birgittu / Norðvesturmáli sem með vinklinum „linnulausar árásir fjölmiðla“ / „valdaöflin orðinn örvæntingarfull“ er algerlega hlægilegt. „George Soros vildi fella Sigmund“ – hlægilegt.

Pawel rekur að fjórir aðilar hafi komið fram og sagt sögu af því að Birgitta hafi reynt að hafa áhrif á uppröðun listans eftir að kosningu lauk. Að afskrifa þetta sem „innantómar, örvæntingarfullar árásir, studdar áfram af valdaelítu fjórflokksins“ sé algjörlega „óframbærilegt:

Nú hafa fjórir aðilar, allt píratar, komið fram þar af alla vega tveir undir nafni og sagt sömu söguna af því að Birgitta hafi verið að reyna að hafa áhrif á uppröðun listans í NV eftir að kosningu hans lauk, hvatt fólk til að fella hann, rægt þann sem vann og beitt sér í endurtekinni kosningu. (Væri það ekki bara í lagi, gæti fólk spurt? Mitt svar: Ég hef ekkert á móti smölun, en ef þú segist vera á móti smölun og vilt banna öðrum að smala, segist ekki stunda smölun, en stundar smölun þá er það óheiðarlegt, klárt mál). En ok, frumkvæðið að þessu máli virðist allt koma frá óánægðum Pírötum, EKKI fjölmiðlum. Eiga fjölmiðlar, Bæjarins besta, RÚV, Eyjan að þegja um svona ágreining og ásakanir um óheiðarleika í vinsælasta flokki landsins? Auðvitað ekki.

Við bætist: Reglurnar sem bönnuðu „smölun“ voru settar í miðri kosningu. Starfsmenn Pírata kærðu kosninguna. Úrskurðarnefnd Pírata sagði í raun að maðurinn sem vann upprunarlegu kosningarnar hefði svindlað, en reglurnar hefðu bara ekki tekið gildi. Mannorð hans var svert og listinn felldur í kjölfarið. Þessi úrskurður er svo ótrúlegur og verður kenndur í félagarétti sem dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina. Ef reglurnar sem sem kært er eftir voru ekki teknar gildi þá á auðvitað bara að vísa málinu frá án þess að taka afstöðu til kærunnar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði