Ragnar Þór Pétursson bendir á mjög athyglisverðan punkt í umræðu á Facebook, nefnilega að stjórn landsins hafi gengið nokkuð vel fyrir sig síðustu mánuðina þrátt fyrir að vitað væri að stefndi í kosningar.
Reynslan af stjórnarháttum jafnvel B og D með laskað/takmarkað umboð síðustu mánuði virðist til dæmis vera mun jákvæðari og eðlilegri en önnur stjórnmál síðustu ára hér á landi.
Það er rétt hjá Ragnari, stjórnmálin undanfarið hafa einkennst af meiri hófstillingu og sáttfýsi en hefur verið í langan tíma.
Ragnar veltir því líka fyrir sér hvort svo gæti farið eftir kosningar að mynduð yrði minnihlutastjórn eftir kosningar ef önnur stjórnarmynstur reynast ómöguleg.
Þetta er náttúrlega allt á vangaveltustiginu, en staðan er þessi: VG og Samfylking segjast ekki vinna með Sjálfstæðisflokki. Á Pírötum má heyra að þeim þyki fráleit hugmynd að vinna með Sjálfstæðisflokki eða Framsókn. Birgitta Jónsdóttir setur fram þessa spurningu í umræðum á áðurnefndum þræði:
Framsókn með Pírötum?????
Má þá kannski líta á Pírata, VG og Samfylkingu sem eina blokk? Ekki alveg. Á það er bent að framboðslistar Pírata eins og þeir koma út úr prófkjöri hallast talsvert til vinstri. Þeir munu taka fylgi frá vinstri flokkunum – sérstaklega virðist Samfylkingin í hættu. Það er því skiljanlegt að talsverðar ýfingar eru milli Pírata og Samfylkingarfólks þessa dagana.
Háværustu kröfurnar fyrir kosningarnar heyrist manni vera um úrbætur í heilbrigðismálum, húsnæðismálum og um breytingar á kvótakerfinu. Píratar standa hins vegar enn á kröfunni um stutt kjörtímabil þar sem samþykkt er stjórnarskrá. Ef svo fer er ljóst að breytingar í áðurnefndum málaflokkum sitja á hakanum – þær er ekki hægt að afgreiða á stuttu kjörtímabili, slíkt er einfaldlega ekki framkvæmanlegt.
En kjörtímabilið gæti hins vegar orðið stutt af öðrum ástæðum, einfaldlega þeim að ekki náist að mynda ríkisstjórn sem er starfhæf eða nær að lifa af.
Það má rifja upp árið 1978. Þá vann Alþýðuflokkurinn stórsigur. Þetta var breyttur Alþýðuflokkur frá því sem áður var. Aðal hugmyndasmiðurinn var Vilmundur Gylfason og í hópi með honum var ungt og róttækt fólk. Merkilegt er til þess að hugsa að það var að nokkru leyti að tala um sömu hluti og nú eru uppi á teningnum í pólitíkinni, kerfisbreytingar, stjórnarskrá.
Ungir kjósendur í þéttbýli samsömuðu sig mjög við þessa útgáfu af Alþýðuflokknum. En það reyndist hins vegar ekki hægt að mynda ríkisstjórn nema með flokkum sem höfðu allt aðrar hugmyndir. Alþýðuflokkurinn fór í stjórn með Framsókn og Alþýðubandalagi. Hún lifði í eitt ár við stöðugar erjur. Stjórnarandstöðunni var í lófa lagi að spila inn á óeininguna.
Eftir þetta sat stutta hríð minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, með Vilmund Gylfason sem mennta-, dóms- og kirkjumálaráðherra (fyrir mína kynslóð var sérlega mikilvægt að opnunartími skemmtistaða var rýmkaður verulega). Svo tók við hin furðulega ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen með hluta Sjálfstæðisflokks, Alþýðubandalagi og Framsókn. Það var þá að verðbólgan fór í hundrað prósent – loks tóku Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur aftur við1983, þá með gamla laginu, í helmingaskiptum, og fátt hafði í raun breyst.