fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Samfylkingin tekur vinstri beygju

Egill Helgason
Laugardaginn 4. júní 2016 00:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kemur ekki á óvart að Oddný Harðardóttir skuli hafa verið kosin formaður Samfylkingarinnar með talsverðum yfirburðum. Þetta gerist reyndar á sama degi og stór hluti þjóðarinnar er að njóta einstakrar veðurblíðu – en aðrir eru að horfa á fremur skringilegar forsetaumræður í sjónvarpinu. Samfylkingin er ekki beint að fanga athygli landsmanna á þessum tímamótum. Það er eftir öðru hjá flokknum.

Oddný er ekki umdeildur stjórnmálamaður, hún er almennt vel liðin, virkar heiðarleg og hreinskiptin. Hún naut stuðnings Jóhönnu Sigurðardóttur, er máski fremur eins og eðlilegt framhald af formannstíð þessa áhrifamesta leiðtoga Samfylkingarinnar – en Árni Páll þá dálítið eins og útúrdúr.

Magnús Orri Schram, sem varð í öðru sæti í kosningunni, lagði áherslu á að flokkurinn yrði að höfða inn á miðjuna, líkt og Árni Páll hefur gert. En hverju fórnar jafnaðarmannaflokkur við það? Sagt er að í kosningabaráttu sinni hafi Magnús Orri leitað fyrirmynda hjá kanadíska stjórnmálamanninum Justin Trudeau. Sá kemur úr flokki frjálslyndra. Oddný hefur mun eindregnari vinstri svip.

Nú eru tveir gamalgrónu flokkarnir á vinstri vængnum undir stjórn kvenna, Oddnýjar og Katrínar Jakobsdóttur. Maður sér ekki ýkja mikinn mun á stefnu þeirra, satt að segja, ekki þegar ESB er nánast komið af dagskrá, að minnsta kosti í bili. Samfylkingarinnar bíður líklega slæmt tap í næstu kosningum; hvorki Oddný né aðrir formannsframbjóðendur hafa virst líklegir til að breyta því.

Í fyrsta skipti blasir við að Samfylkingin verði minni en VG – flokkurinn sem var stofnaður af fólki sem á sínum tíma vildi ekki vera með í sameiningu vinstri aflanna – um og upp úr aldamótum var Samfylkingin með þrisvar sinnum meira fylgi en VG. Katrín Jakobsdóttir virðist óskoraður leiðtogi vinstri aflanna í landinu og forsætisráðherraefni. Einhvern tíma hefði þurft að segja samfylkingarfólki það tvisvar að formaður VG væri í þeirri stöðu.

En nú eru væntingarnar minni. Flokksmenn búast ekki við miklu svo miklu fylgi í næstu kosningum og Oddnýju verður varla kennt um þótt illa gangi. Hún gæti þó náð að hífa fylgið dálítið upp, sérstaklega ef Píratafylgið fer á flakk. Með kjöri hennar færist Samfylkingin til vinstri – sem er í raun eðlilegt og í samræmi við þá þróun sem er að verða meðal jafnaðarmanna annars staðar. Við lifum tíma þegar jafnaðarmenn leita í smiðju Thomasar Pikkety, ekki Tonys Blair.

 

aa28216e45-384x297_o

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“