fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Úrslit kosninganna

Egill Helgason
Sunnudaginn 26. júní 2016 08:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrslitin í kosningunum í gær voru ekki sérlega óvænt, en það er samt ýmislegt sem maður staldrar við. Guðni Th. Jóhannesson er öruggur sigurvegari, en honum tókst samt að missa stóran hluta fylgisins sem hann hafði í skoðanakönnunum í kosningabaráttunni. Hann endar í 38,9 prósentum (samkvæmt tölum klukkan 7.22) – var með yfir 60 prósent í könnunum á fyrri stigum baráttunnar. Einungis einu sinni hefur forseti verið kjörinn á Íslandi með lægra hlutfalli atkvæða, það var Vigdís Finnbogadóttir árið 1980.

Það verður að segjast eins og er að kosningabarátta Guðna var ekki sérlega vel heppnuð. Hann reyndi aðeins of mikið til að geðjast öllum, var farinn að virka eins og hann væri atkvæðalítill – jafnvel tækifærissinnaður. Maður hefur jafnvel á tilfinningunni að fylgið hefði getað minnkað enn ef kosningabaráttan hefði verið lengri.

Guðni er góður og gegn maður, sérlega viðkunnanlegur, og mun ábyggilega gegna forsetaembættinu með sóma. Hann er alþýðlegur og heldur því vonandi áfram. Skoðanir hans virðast frjálslyndar. Hátignarbragurinn yfir síðustu tveimur forsetum hefur satt að segja verið nokkuð yfirþyrmandi. Með því getur Guðni áreiðanlega aukið vinsældir sínar á nýjan leik. En það er varla við því að búast eftir það sem birtist í kosningabaráttunni að hann verði atkvæðamikill á hinu pólitíska sviði – að því leyti verður hann væntanlega ólíkur Ólafi Ragnari Grímssyni sem sífellt seildist í meiri og meiri völd.

Í því sambandi má geta þess að á næsta leiti eru stjórnarskrárbreytingar sem gera ákveðnu hlutfalli kjósenda kleift að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál – synjunarréttur forsetans kann því að verða að miklu leyti óþarfur. Það er vel – þessu tæki forsetans hefur einungis verið beitt þrisvar í lýðveldissögunni og í raun algjörlega hippsum happs.

Ýmsum finnst sjálfsagt að einna stærstu tíðindin séu afhroð Davíðs Oddssonar. Hann varð í fjórða sæti með aðeins 13,7 prósent. Það eru ekki dæmi þess að svo þekktur og áhrifamikill maður bjóði sig fram til forseta á Íslandi og fái svo lítið fylgi. Þegar hann kom fyrst fram bjuggust margir við að hann myndi að minnsta kosti fara í 30 prósent. Sigur virtist þó alltaf fjarlægur. En kosningabarátta Davíðs var algjörlega misheppnuð – hún var mestanpart á neikvæðum nótum. Það var náttúrlega óhjákvæmilegt að kosningarnar snerust að miklu leyti um Davíð – einfaldlega vegna þess hversu stórt hlutverk hann hefur leikið í íslenskum stjórnmálum. En kosningarnar urðu í raun leiðinlegri og innihaldslausari fyrir vikið.

Davíð á hóp ákafra stuðningsmanna sem eru undrandi og reiðir, þeir ofmátu algjörlega stöðu leiðtoga síns, ekki einu sinni Sjálfstæðismenn hlýddu þegar kallið kom. Það kæmi ekki á óvart þótt Davíðsflokkurinn hyggði á einhvers konar hefndir.

Halla Tómasdóttir náði mikilli fylgissveiflu undir lokin, fær 28,2 prósent. Það er nokkuð afrek. Hún gerði „gott mót“ eins og það er kallað. Halla naut þess auðvitað að vera kona, baráttan milli efstu frambjóðenda var vissulega óþarflega karllæg. En kosningabarátta hennar var vel heppnuð, hafði yfirbragð bjartsýni og jákvæðni – Höllu ættu í raun að vera allir vegir færir í pólitík ef hún kærir sig um.

Andri Snær Magnason reyndist ekki hafa skírskotun til fjöldans þótt hann sé vinsæll rithöfundur. Það er ekki mikil huggun að ná að fara yfir Davíð á síðustu metrunum. Úrslitin eru vonbrigði fyrir hann og stuðningsmenn hann, en Andri má þó eiga að hann hélt fast við sinn boðskap, sín hjartans mál – og kemst þannig með ágætum sóma frá kosningunu.

En er það ekki síst innihaldsleysið sem stendur upp úr eftir kosningarnar; hvað var fólkið eiginlega að tala um? Kosningabaráttan skilur í raun afar lítið eftir – var tekist á um einhverjar hugmyndir? Þegar allt kemur til alls eru afar fá mál á verksviði forsetans í rauninni og það ríkir látlaus óvissa um hvert raunverulegt hlutverk hans er. Við erum sífellt að tala fram og aftur um hvað forsetinn eigi að gera – en  fáum aldrei neinn botn í það. Ólafur Ragnar gerði embættið miklu pólitískara en áður og varð afar umdeildur fyrir vikið. Þegar hann var kosinn var hann nýhættur sem formaður sósíalistaflokks, en hann endaði sem leiðtogi hins þjóðernissinnaða íhalds.

Sigurvegarinn virðist að miklu leyti ósamála túlkun Ólafs Ragnars á embættinu – hann hefur nefnt fyrri forseta sem fyrirmyndir. Það er semsagt í höndum Guðna að móta embættið upp á nýtt – það virðist alveg öruggt að hann verður mun átakafælnari en Ólafur Ragnar. Margir munu ekki sýta það. En við gætum líka spurt og það ekki í fyrsta sinn, hví erum við með þetta embætti?

Það má hugleiða orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem hún lét falla í viðtali við Fréttablaðið um helgina:

„Hins vegar er ég ekki sannfærð um að við eigum að vera með forsetaembætti. Þetta embætti verður einhvern veginn of stórt fyrir svona litla þjóð. Við erum að leita að einhverjum sem getur verið sameiningartákn allra og það er ekki auðvelt að finna slíkan einstakling og að auki verður hann of fyrirferðarmikill. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt leið. Ef við horfum í kringum okkur, á lönd, þar sem forseti fer ekki með framkvæmdarvald, þá er ekki lögð þessi mikla áherzla á þann einstakling, sem gegnir embættinu. Það er miklu meiri rótering í því heldur en hefur verið hjá okkur. Mér finnst alveg spurning, hvort forseti Alþingis gæti ekki gegnt þessu hlutverki, að vera fulltrúi þjóðarinnar út á við, þegar á því þarf að halda.“

 

13533254_10154307673885439_1841828749656599364_n

Hér er svo lítil mynd frá kosningahátíð á Grikklandi í gærkvöld. Eftir þetta tekur fótboltinn völdin. Hér munu allir halda með Íslandi á móti Englandi. Mér er meira að segja sagt að hægt sé að fá íslenska fána í búðum í Aþenu.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Rashford missir prófið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigrún og Andrea í framkvæmdastjórn Coca-Cola á Íslandi

Sigrún og Andrea í framkvæmdastjórn Coca-Cola á Íslandi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Helen skrifar: Uppreisnarhaf íslenskunnar

Helen skrifar: Uppreisnarhaf íslenskunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“