Á ríkisráðsfundi síðdegis í dag hættir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra og ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar tekur við.
Varla er við því að búast að Ólafur Ragnar Grímsson trufli áform Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um áframhaldandi stjórnarsamstarf, þessi stjórn hefur traustan þingmeirihluta.
Hann getur samt, og við því er máski að búast, sett ákveðna fyrirvara – þó ekki nema bara með því að beita áhrifavaldi sínu.
Eitt af því sem dinglar í lausu lofti er hvenær kosið verður í haust, það var jafnvel að heyra að forystumenn stjórnarinnar vildu skilyrða kosningarnar við framgang þeirra mála sem þeir vilja fá samþykkt.
Ólafur Ragnar hlýtur að tjá sig með einhverjum hætti og vísa til þeirrar pólitísku upplausnar sem er í samfélaginu og skorts á trausti. Eitt af því sem hann er líklegur til að hugleiða er þetta óljósa fyrirheit um kosningar – sem er ekki fallið til annars en að ala á óvissu og úlfúð.
Það virðast ekki verða miklar breytingar á ríkisstjórninni. Ráðherrasveit Sjálfstæðisflokksins er sögð verða óbreytt. Framsóknarmegin vekur athygli að Lilja Alfreðsdóttir kemur inn í ríkisstjórnina.
Nú er farið að tala um Lilju sem framtíðarforingja í flokknum. Hún hefur starfað með Sigmundi í forsætisráðuneytinu og verið handgengin honum. Það er að undirlagi Sigmundar að hún kemur inn í stjórnina.
Er henni kannski ætlað að vera andlit flokksins í kosningunum í haust?
Sagt er að Lilja setjist í sjálft utanríkisráðuneytið. Það er býsna há staða til að byrja í. Í því sambandi er líka athyglisvert að Lilja hefur verið evrópusinni og meira að segja setið í stjórn Evrópusamtakanna svokallaðra.
En ef svo fer að Gunnar Bragi Sveinsson þarf að láta sig hverfa úr utanríkisráðuneytinu, hlýtur maður að spyrja hvers vegna? Gunnar Bragi hefur virst vera að ná ágætum tökum á ráðuneyti sínu. En er ekkert launungarmál að stórútgerðin reyndi að flæma hann burt úr ráðuneytinu vegna makrílmála. Er það loks að takast nú?