fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Samfó og Píratar í sama liði?

Egill Helgason
Föstudaginn 15. apríl 2016 08:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og staðan er nú í íslenskum stjórnmálum bendir allt til þess að hrein stjórnarskipti verði í kosningum í haust. Stjórnarflokkarnir þurfa að hífa síg rækilega upp í fylgi ef svo á ekki að vera – það virðist afar ólíklegt að slíkt geti gerst. Hrein stjórnarskipti voru – ef undanskildar eru minnihlutastjórnir – 1971 og svo aftur ekki fyrr en 2013. Einhverjum stjórnmálaflokki, oftast Framsókn, tókst alltaf að stökkva á milli eftir kosningar.

Það að hrein stjórnarskipti verði í tvennum kosningum í röð sýnir að fylgissveiflur eru meiri en áður, tryggð kjósenda við stjórnmálaflokka hefur minnkað verulega. Ungt fólk er upp til hópa óflokksbundið.

Við höfum hér kerfi samsteypustjórna, það er óþekkt að einn flokkur geti náð meirihluta. Flokkar semja sig inn í stjórn að loknum kosningum. Þetta þýðir að kjósendur vita oft lítið um hvað þeir eru í raun að greiða atkvæði. Stjórnarstefnan verður til í lokuðum herbergjum vikurnar eftir kosningar. Þá fellst VG á Evrópusambandsaðild sem flokkurinn er annars á móti, Sjálfstæðisflokkurinn á skuldaleiðréttingu og loðin fyrirheit um afnám verðtryggingar – sem hann var andsnúinn nokkrum dögum fyrr.

Svona hefur þetta alltaf verið. Að endingu fórnaði Alþýðubandalagið til dæmis alltaf hermálinu þegar það komst í stjórn – og var það þó einatt aðalmál flokksins. Kjósendum flokksins líkaði þetta oftast illa.

Fólk kýs eitt, en fær eitthvað allt annað.

Nú eru teikn á lofti um að stjórnarandstaðan  taki við stjórnartaumunum næsta haust, allir flokkarnir saman eða einhverjir þeirra. (Auðvitað er ekki hægt að útiloka ný framboðsöfl.) Eins er næsta víst að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur halda áfram í stjórn ef þeir geta – og jafnframt fremur ólíklegt að einhver stjórnarandstöðuflokkanna fari að vinna með þeim, þótt það sé ekki óhugsandi.

Að þessu leyti virðast valkostirnir skýrir. En hversu langt á stjórnarandstaðan að ganga í að bræða sig saman fyrir kosningar? Í uppnáminu vegna Panamaskjala birtust þau oft saman, forystufólk stjórnarandstöðunnar, fjögur saman, líkt og heild.

En hvað er eftirspurnin mikil eftir þessu, meðal flokksmanna og meðal almennings?

Víða erlendis, til dæmis á Norðurlöndunum, er yfirleitt alveg skýrt hvaða flokkar ætla að vinna saman eftir kosningar. Kjósendur fá að vita það. Það er ekkert svigrúm til að möndla með það eftir á í bakherbergjum.

Nú hefur verið boðaður fundur í Iðnó undir yfirskriftinni Eigum við að vinna saman? Fundarboðandi er Magnús Orri Schram, formannsframbjóðandi í Samfylkingunni. Á mælendaskrá eru meðal annars Dagur B. Eggertsson úr Samfylkingunni, Rósa Björk Brynjólfsdóttir úr VG, Ilmur Kristjánsdóttir úr Bjartri framtíð – og helsta stjarna Píratanna, Helgi Hrafn Gunnarsson.

Dagskrá fundarins er svohjóðandi:

Hópur fólks í stjórnmálum vill að velta upp möguleikum til samvinnu umbótaaflanna á næsta kjörtímabili.
Er grundvöllur til samvinnu ? Hver gætu næstu skref verið?

Birgitta Jónsdóttir spyr á Pírataspjallinu hvað Pírötum finnist um þennan fund, biður Helga Hrafn að útskýra og segist ekki hafa heyrt neitt um „þetta verkefni“.

Viðbrögðin eru misjöfn. Sumir eru nokkuð jákvæðir, telja að rétt sé að ræða saman á þessum nótum. En svo eru aðrir mjög neikvæðir. Mörður Ingólfsson, sem er frumkvöðull í hreyfingu Pírata, spyr hvort Samfylkingin sé ekki „toxic“. Hann segir síðan:

Það sem getur verið slæmt er að fallast á að Píratar séu með einhverjum hætti sambærilegt afl (sbr. orðanotkunina umbótaöflin) og Samfylkingin er að Samfylkingin sést vera að nudda sér utan í Pirata og reyna að koma hlutunum þannig fyrir að fólk sjái Samfó og Pírata í „sama liði“. Það á, að mínu mati, ekki að gera. Píratar eru ekki í liði með Samfylkingunni og Píratar eiga ekki að hjálpa Samfylkingunni með því að detta inní einhver „umbótaöfl“ undir forræði Samfylkingarinnar.

Sú skoðun kemur fram á spjallinu að þetta sé „paranoja“ í Merði. En eftir stendur spurningin hversu náið flokkarnir eiga að vinna saman fyrir kosningar, hvort þeir eiga að gefa upp áform sín um stjórnarmyndanir og þá kannski hvaða málefni verður hægt að sameinast um, eða hvort þeir eigi að ganga „óbundnir til kosninga“, með gamla laginu.

 

Screen Shot 2016-04-15 at 08.15.13

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“