Nú þegar mesta túristaskriða fyrr og síðar er á leiðinni yfir Ísland, fellur dómur sem getur haft talsverð áhrif á ferðaþjónustustarfsemi í þéttbýli.
Þetta myndi líklega teljast prófmál, en þarna var aðilum sem höfðu rekið ferðamannagistingu í fjöleignarhúsi í Skuggahverfi gert skylt að leita samþykkis annarra íbúa fyrir starfseminni.
Það voru aðrir íbúar í húsinu sem höfðu stefnt – og unnu sigur. Þeir kvörtuðu undan hávaða og ónæði vegna ferðamanna sem komu og fóru í þrjár í búðir í húsinu. Ein íbúðin var sögð rúma 10 manns.
Airbnb ferðamannagisting er út um borg og bý. Það heyrast fréttir af fjölbýlishúsum í eða við miðborgina þar sem meirihluti íbúða er í útleigu til ferðamanna. Nýskeð var sagt frá stóru fjölbýlishúsi þar sem eru fastir íbúar í einungis þriðjungi íbúðanna.
En samkvæmt úrskurði héraðsdóms þurfa semsagt allir íbúar að samþykkja slíka nýtingu á húsnæði.