Forseti á Íslandi þarf að geta talað þannig að stærstur hluti þjóðarinnar hlusti og taki mark á orðum hans – forsetinn er þjóðkjörinn en ekki kosinn af þingi eins og er víða í evrópskum lýðveldum.
Við þurfum forseta sem býður sig fram vegna þess að hann er velviljaður og vill hag þjóðarinnar sem bestan. Við höfum lítið að gera við fólk sem er knúið áfram af hégómagrind, valdasýki eða vill jafnvel nota embættið til að rétta hlut sinn.
Við þurfum forseta sem getur rætt um framtíðina, tækifærin í henni og hætturnar, án þess að það verði innantómt hjal eins og oft vill verða – eða tækifærismennska.
Við þurfum forseta sem getur hlustað á fólk og talað við það á eðlilegan hátt. Það myndi alls ekki saka ef hægt væri að skrúfa aðeins niður þann hátignarbrag sem hefur verið í kringum forsetaembættið.
Forsetinn á ekki að vera fulltrúi einhvers sérstaks hóps, hvort sem það er stjórnmálahreyfing eða félag um málefni. Það er reyndar stór hætta á slíku ef forseti er kjörinn með til dæmis 20 prósentum atkvæða. En forsetinn forðast flokkadrætti og er ekki í liði.
Forsetinn heldur hæfilegri fjarlægð frá hagsmunahópum. Hann er til að mynda ekki erindreki íslensks „viðskiptalífs“ í útlöndum, fremur en smábátasjómanns fyrir vestan, hjúkrunarfræðinema í Reykjavík eða innflytjanda sem fæddist á erlendri grund en býr nú á Íslandi.
Forsetinn stendur með lýðræði, velferð og mannréttindum, en gerir sér ekki dælt við harðstjóra, jafnvel þótt heimboð þeirra séu girnileg og einhverjir viðskiptahagsmunir kunni að vera í húfi. Séu slík samskipti talin nauðsynleg geta aðrir séð um þau.
Forseti þarf að hafa tilfinningu fyrir lífi þjóðarinnar, náttúruuverðmætum og sögu hennar. Hann þarf að geta talað fyrir menntun og menningu – af því veitir ekki. Tveir af fyrri forsetum höfðu menninguna í hávegum, en hann þarf að geta fjallað um hana á lifandi og áhugaverðan hátt, þannig að það verði ekki stagl. Menningin er líka í núinu, ekki bara í gömlum bókum.
Nýr forseti þarf að gera það sem núverandi forseta hefur að nokkru leyti hefur láðst að gera – að tala á móti græðgisvæðingu og ójöfnuði.
Málskotsrétti hefur aðeins verið beitt þrisvar. Hann hefur semsagt verið virkjaður, en í raun eru afskaplega litlar fyrirmyndir um hvernig hann skuli notaður og þær eru býsna tilviljanakenndar. Við gætum náttúrlega fengið forseta sem vill alls ekki beita honum eða þá einhvern sem vill jafnvel nota hann í tíma og ótíma. Um þetta munu umræður frambjóðenda væntanlega snúast að miklu leyti; hætt er við að að það verði nokkuð ómarkvisst.
Almennt verður að vera hægt að treysta forsetanum til að beita dómgreind og leita sér ráða þegar hann notar vald sitt – láta ekki geðþótta, flokkadrætti, hans eigin pólitísku hagsmuni eða vinsældaþörf ráða för.
Það er því miður alls engin samstaða um hvernig íslenskur forseti á að beita valdi sínu, á fyrsta ári sínu sem forseti var Ólafur Ragnar Grímsson skammaður fyrir að tjá sig um hversu vegir á Barðaströnd væru lélegir. Þetta þótti ekki við hæfi forseta. Einum og hálfum áratug síðar var hann farinn að leggja línurnar í utanríkisstefnu Íslands og kominn í bullandi andstöðu við breytingar á stjórnarskrá.
Við vitum ekki hvort næsti forseti mun hegða sér á sama hátt, og væntanlega fáum við aldrei forseta sem sameinar alla þjóðina, líkt og Kristján og Vigdís gerðu, nota bene um ákveðin nokkuð óumdeild lágmarksatriði. Slíkt er nánast óhugsandi í þeim veruleika sem við lifum í. Kröfurnar um þátttöku forsetans eru aðrar og meiri. Við erum að upplifa tíma þar sem ríkir mikið vantraust og ójafnvægi og öfgar sækja í sig veðrið. Andrúmsloftið í stjórnmálunum hefur sjaldan verið jafn hatursfullt og síðustu misseri; það á ekki einungis við á Íslandi.
Forseti þarf að taka af skarið varðandi fordóma, hatur og andúð á útlendingum. Enginn hefur sterkari stöðu en hann til að vara við framrás öfgaafla, ef forseti fer vel með getur áhrifavald hans verið gríðarlegt.
Þetta útheimtir mannvit, þekkingu og dómgreind, skilning á lýðræðislegum og siðferðislegum gildum, hæfileika og þor til að koma þeim í orð.
Annars gæti farið svo að embættið sé einfaldlega að syngja sitt síðasta í núverandi mynd. Því náttúrlega gæti verið að við kæmumst að því eftir valdaskeið hins umdeilda Ólafs Ragnars og tíma einhvers annars umdeilds arftaka hans, að annað fyrirkomulag henti okkur betur. Við Íslendingar erum auðvitað dálítið lélegir að hrófla við kerfum ef við höfum annað borð komið þeim upp – óskýrleikinn í kringum forsetaembætti í stjórnarskránni er dæmi um það og hjálpar ekki til.