Forsetakosningarnar (þær íslensku, ekki þær bandarísku) eru opnar upp á gátt eftir að Katrín Jakobsdóttir gaf út yfirlýsingu um að hún ætli ekki að bjóða sig fram.
Af þeim sem hafa verið orðaðir við forsetaframboð er það hún ein sem hefur skorið sig úr hjörðinni, virkað líkleg til að fá alvöru fylgi – og sigra. Það er líka greinilegt að hún vakti ugg meðal pólitískra andstæðinga, eins og lesa mátti úr Reykjavíkurbréfi Moggans um helgina.
Nú kemur hugsanlega fjöldi frambjóðenda til álita, en það er varla neinn sem skarar fram úr. En einhverjir hugsa sér sjálfsagt til hreyfings sem hefðu ekki átt séns ef Katrín hefði farið fram, varpa jafnvel öndinni léttar. Össur Skarphéðinsson kemur upp í hugann. Hann langar. Og svo ætti að vera möguleiki fyrir konu – það eru margir þeirrar skoðunar að rétt sé að næsti forseti verði kvenkyns.
Maður heyrir ýmsa á vinstri væng taka því með feginleik að Katrín ætli ekki í forsetann, þeir segjast ekki hafa viljað missa hana þangað. Það hefði þó verið ákveðinn sigur fyrir vinstri hreyfingu sem er í molum að koma einum helsta leiðtoga sínum í forstetaembættið. Þegar þessar vangaveltur eru frá vaknar spurningin um hver séu sóknarfæri Katrínar í pólitík.
Flokkur hennar, VG, er fastur í fylgi smáflokks. Hinn eðlilegi samstarfsflokkur, Samfylkingin, er í enn verra ástandi. Endurnýjunin á vinstri vængnum er sáralítil, þetta er sama fólkið ár eftir ár. Steingrímur og Ögmundur sitja sem fastast í þingflokknum eins og þeir hafa gert síðan á síðustu öld.
Hvorki VG né Samfylkingin eru að laða til sín nýtt fólk. Ein rökin gegn því að Katrín færi í forsetaframboð voru þau að það væri enginn annar til að taka við flokknum. Það ber vott um mikið hallærisástand. Stundum eru viðraðar hugmyndir um að sameina VG og Samfylkingu, en í raun virðist ekki mikill hljómgrunnur fyrir því. Hvorugur flokkurinn veit almennilega hvert hann er að fara – og kannski nenna menn heldur ekki að fara í enn einn sameiningarleiðangurinn.
Möguleikar VG í stjórnmálum virðast fyrst og fremst fólgnir í því að Píratar vinni sigur í alþingiskosningunum á næsta ári og þurfi samstarfsflokk. Þá gæti VG komist í ríkisstjórn þótt fylgið sé ekki mikið. Í þinginu eru vinstri flokkarnir algjörlega í skugganum af þriggja manna þingflokki Píratanna. Þar eru stjörnur stjórnarandstöðunnar en vinstrið virkar magnlaust, stefnulaust og hugmyndalaust.
Nú þegar Katrín aftekur forsetaframboð hefur hún ærið verk að vinna í sínum eigin flokki. Það er ekki nema ár í alþingiskosningar. Tekst henni að rífa flokkinn upp. Katrín er vinsæl og viðkunnanleg sem stjórnmálamaður, en kannski vantar eitthvað upp á kraftinn, virkar stundum værukær.