Hér er póstkort útgefið af Agli Jacobsen og versluninni Birni Kristjánssyni og sent til Berlínar 1925. Myndin er tekin frá Arnarhóli, segir á síðu sem nefnist Svipmyndir úr fortíðinni en þar birtist myndin. Það er skemmtilegt hvernig hún hefur verið lituð.
Þetta er horfin Reykjavík, fá svæði í bænum hafa orðið eyðileggingu jafn hrikalega að bráð og þessi hluti Kvosarinnar. Það er einmitt þarna sem á að rísa umdeilt stórhýsi sem farið er að kenna við Hafnartorg.
Við sjáum að á myndinni er steinsteypa farin að gera innreið sína, í líki stórhýsis Natans & Olsen, oftast kallað Reykjavíkurapótek, og í byggingu Eimskipafélagsins. Þarna glittir líka í gömlu lögreglustöðina sem fyrst var reyndar barnaskóli.
Flestöll önnur hús á myndinni eru á bak og burt, það var byggt ofan á hús bankans á Lækjartorgi og þar er núna héraðsdómur. Hús Ziemsen var flutt í Grófina og endurbyggt með fallegum hætti, en annars er þetta horfin borgarmynd.