Það er kaldhæðnislegt að horfa á Repúblikana í Bandaríkjunum örvænta vegna Donalds Trump. Því það eru þeir sem hafa boðið upp í þennan dans, með daðri við Teboðshreyfinguna, með sífelldu tali um að stjórn Obama sé glæpasamleg eða þaðan af verra, með fjölmiðlum sem spúa út úr sér rugli og óþverra allan sólarhringinn.
Þetta er útkoman og hún þarf kannski ekki að koma á óvart. Því má heldur ekki gleyma að Ted Cruz er engu skárri en Trump, hann gæti jafnvel verið verri – það er eins og Cruz meini það sem hann segir meðan Trump stekkur bara til og frá á það sem gæti verið vinsælt hverju sinni.
En innsti kjarninn í Repúblikanaflokknum er orðinn mjög áhyggjufullur. Það er jafnvel talað um að grípa til aðgerða á landsfundi flokksins, að loknum forkosningum, til að koma í veg fyrir að Trump verði forsetaframbjóðandinn.
Birna Anna Björnsdóttir sem býr í Bandaríkjunum skýrir þetta svona út á Facebook:
Áhugaverðir hlutir halda áfram að gerast Repúblikanamegin í forvals-ævintýri þeirra. Í dag komu til tals áhugaverðar mögulegar fléttur eftir að Mitt Romney hélt ræðu þar sem hann fordæmdi Trump á ótal mismunandi vegu. Spekúlantar benda á að með lögmál tölfræðinnar, spár og kannanir í huga sé nær ómögulegt fyrir einn af þeim þremur sem eftir eru í forvalshópnum (Cruz, Rubio og Kasich) að sigra Trump. Samanlegt geti þeir hins vegar komið í veg fyrir að Trump nái þeim 1237 kjörmönnum sem hann þarf til að vera með meirihluta kjörmanna á landsfundi Repúblikana og þar með fá tilnefningu flokksins í fyrstu umferð. Sé enginn með hreinan meirihluta kjörmanna á landsfundinum þarf aðra umferð og þá geta kjörmenn hinna frambjóðendanna sameinast um annan frambjóðanda en Trump. Þetta yrði svokallað „brokered convention“.
Þetta hefur ekki gerst síðan 1948. En nú gæti þetta mögulega gerst þar sem sú staða er komin upp að aðrir frambjóðendur og stuðningsfólk þeirra eru líklegir til að sameinast um svo megna andúð á Trump að þeir gætu ákveðið að biðja sína kjörmenn að sameinast um annan frambjóðanda. Það yrði þó líklega til of mikils ætlast að láta þá sameinast um einn af „hinum“ sem eftir eru (hvorki Cruz né Rubio gætu hugsað sér að „gefa“ hinum tilnefninguna) og því yrði að koma til sögunnar utanaðkomandi frambjóðandi, svo kallaður „dark horse candidate“. Hér gæti það orðið Romney. Nú, eða einhver allt annar.
Mitt Romney kallaði Trump svikahrapp í ræðu sinni. Gleymum því ekki að forysta Repúblikanaflokksins yrði hæstánægð með mann eins og Marco Rubio sem forsetaframbjóðanda. Hann er til hægri við allt sem hefur sést í Hvíta húsinu fyrr og síðar – líka við Bush og Reagan.
Rubio og Romney eru dyggir fulltrúar 1 prósentsins, hinna ofurríku sem sölsa stöðugt til sín meiri auð meðan kjör lægri stétta standa í stað eða versna og öryggi á vinnumarkaði minnkar stöðugt (við horfum nú upp á svipaða aðför gegn réttindum launafólks í nafni auðhringsins Rio Tinto í Straumsvík). Auðmönnum sem fjármagna Repúblikana er meinilla við Trump.
Framrás Trumps er á sinn hátt uppreisn gegn þessu – og allt á nótum tilfinninga og upphrópana sem er erfitt að eiga við. Hann höfðar til þeirra sem hafa minnsta menntun, finna lítið fyrir því hvað Bandaríkin eru mikilfengleg. Að hætti pópúlista kennir hann innflytjendum um. Gagnrýni hans á hnattvæðingu og fríverslunarsamninga hefur ákveðinn samhljóm á vinstri vægnum. Trump hefur sagst ætla að hækka skatta á ríkt fólk, en svo hefur hann líka sagst ætla ekki að gera það. Teboðið og fjölmiðlar eins og Fox News hafa búið til jarðveginn meðan forysta Repúblikana hefur verið upptekin við að stöðva allt sem kemur frá Obama.
Fyrir vikið er eins og Repúblikanaflokkurinn sé að liðast í sundur og gamla íhaldið og patríarkarnir í flokknum vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir eru íhaldsmegin í pólitíkinni, eru menn kerfisins, og það er ekki líklegt að fordæming þeirra sem verður æ háværari virki gegn þjóðernispopúlismanum sem Trump hefur leyst úr læðingi.