Ekki man ég til þess fyrr að páskadagur væri undirlagður af pólitík eins og nú. Í öll þau ár sem ég hef skrifað á netið hef ég í mesta lagi sett inn páskakveðju þennan dag.
En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur valið páskadag til að efla varnir sínar í hinu eldfima Tortólamáli.
Hann og kona hans senda frá sér samantekt sem birtist á vefsíðu hans – og verður náttúrlega í öllum fjölmiðlum í dag.
Og svo mætir hann í viðtal í einn helsta pólítíska vettvang landsins, á Sprengisand Sigurjóns Magnúsar Egilssonar, á páskadagsmorgun.
Þátturinn hefur ábyggilega fengið mikla hlustun. En þetta er býsna óvenjulegt, á ginnheilagasta degi ársins, en sýnir hversu mikið liggur við.
Ætli sé ekki nokkuð ljóst hvað verður rætt í páskaboðunum í dag? Þau eru aðal umræðuvettvangurinn það sem eftir lifir dagsins.
Kannski var Sigmundur að freista þess að vinna páskaboðin? Er þar að vænta einhvers konar upprisu eða að minnsta kosti viðspyrnu?