Sjálfur verð ég að viðurkenna að mér hefur aldrei almennilega tekist að gera upp hug minn varðandi stórar spítalabyggingar á Landspítalalóðinni. Mér hefur sýnst kostir og gallar vegast á. En það er staðreynd að þessar framkvæmdir hafa tafist von úr viti, ég hef haldið því fram að það sé ekki bara vegna fjárskorts, heldur líka vegna þess að meðal stjórnvalda hafi ekki verið almennileg sannfæring fyrir þeim.
Og það verður að segjast eins og er að tíminn hefur ekki unnið með þessum fyrirætlunum, ein ný breyta eru hátt í tvær milljónir ferðamanna sem flestir koma á einhverjum tímapunkti á nesið þar sem miðbær Reykjavíkur stendur. Efasemdaraddirnar eru altént háværar – og það þýðir ekki að blása á þær. Það verður að sannfæra fólk með rökum, yfirlæti sannfærir ekki neinn.
Þessa mynd setti arkitektinn Guðni Pálsson á netið. Hún sýnir byggingar Landsspítalans eins og þær koma til með að líta út eftir hinar miklu framkvæmdir. Þarna er risastórt bílastæðahús, en flæmi bílastæða er líka afar stórt á lóðinni. Það er gríðarlegt pláss sem fer undir stæðin.
Það vekur líka athygli hvað þarna er mikið af steinsteypu. Innan um eru örsmáir grænir reitir, svona rétt til afmarka hús og bílastæði.
Guðni Pálsson skrifar:
Leyfi mér að taka að láni þessa mynd. Hún er hluti grein sem er að lýsa ágæti viðbygginga Landspítalans við Hringbraut.
Hér eru allar viðbyggingarnar felldar inn núverandi borgarhluta.
Ég hef áður bent á hve stærðarhlutföllin eru algjörlega ósamræmanleg.
Þessi mynd sýnir glögt hvílíkt skipulagsslys er í uppsigingu.
Húsin í Þingholtunum eru eins litlir kartöflukofar í samanburði við hinar ýmsu viðbyggingar spítalans.
Hér er verið að rústa einum fallegasta borgarhluta Reykjvíkur
Það versta er að spítalinn er heldur ekki góður, tengdur með endalausum undirgöngum.
Samt skal byggja.
Uppskerum varla mikið hrós frá komandi kynslóðum ef fram heldur sem horfir.
Við sjáum síðan hvað gamli spítalinn er agnarsmár í þessum samanburði, hann er hér merktur inn á myndina með rauðum hring.