Hér er innslag um Þjóðleikhúsið sem birtist í Kiljunni í síðustu viku. Eins og segir á vef Ríkisútvarpsins:
Það tók meira en tuttugu ár að byggja Þjóðleikhúsið. Þegar það var loks vígt sumardaginn fyrsta 1950 hafði arkitekt hússins forkælst uppi á þaki þess, að því sagt var, hann gat ekki verið viðstaddur vígsluna, fékk lungnabólgu og dó stuttu síðar.
Vígsluárið upphófust deilur, einn helsti hvatamaður að byggingunni, Jónas frá Hriflu, taldi ekki verjandi að við leikhúsið störfuðu atvinnuleikarar sem fengju föst laun. Einnig var ráðning Þjóðleikhússtjóra umdeild, sá sem varð fyrir valinu hét Guðlaugur Rósinkranz, hann hafði enga reynslu af leikhúsi en hafði verið yfirkennari í Samvinnuskólanum. Guðlaugur var æviráðinn og gengdi embættinu í 23 ár.
Frá þessu var sagt í Bókum & stöðum í Kiljunni. Þar var litast um í sölum Þjóðleikhússins og staldrað við höggmyndir og málverk sem þar er að finna. Einnig var gluggað í bækur sem tengjast leikhúsinu, til dæmis Skuggasund eftir Arnald Indriðason þar sem finnst lík bak við hálfklárað leikhúsið, Turnleikhúsið eftir Thor Vilhjálmsson þar sem byggingunni er lýst eins og “musteri í döprum sið” og Persónur og leikendur eftir Pétur Gunnarsson þar sem húsið er kallað „álfaklettur bernskunnar með lifrauðum tjöldum og rauðklæddum sælgætisdísum”.