Hér eru gamlar tóbaksmyndir, eins og það er kallað á vefnum Gamlar ljósmyndir. Það var Júlíus Eyjólfsson sem setti myndirnar þar inn – ef ég skil rétt þá eru þetta kort sem hefur verið dreift í tengslum við sölu á einhverri sígarettutegund. Júlíus segir að myndirnar séu frá u.þ.b. 1930.
Hér er heldur eyðilegt Lækjartorg og Arnarhóll um vetur með Stjórnarráði, söluturni og þremur styttum – sem allar standa þarna enn. Fjærst, bak við hólinn er hús Sambands íslenskra samvinufélaga sem var reist í landi jarðarinnar Sölvhóls. Við sjáum að þarna liggur klaki yfir götum og gangstéttum, rétt eins og í mestallan vetur.
Hér er horft niður Bankastræti, strompurinn fremst á myndinni tilheyrir hinu hlaðna steinhúsi Bankastræti 3 sem var reist 1881. Þar hefur verslunin Stella verið til húsa síðan 1942. Við sjáum að Lækjartorg er allt öðruvísi en það er nú, síðar var byggt ofan á bankann en mestu munar um stórhýsið þar sem Thomsens-magasín var til húsa og síðar Hótel Hekla. Húsið var rifið 1961.
Á þessari mynd er það hús Eimskipafélagsins sem er mest áberandi. Bygging þess hófst 1919. Annars eru hús fremst á myndinni mestanpart horfin og bryggjurnar sem þarna eru komnar langt undir uppfyllingu. Menn gera sér almennt ekki grein fyrir því hversu uppfyllingarnar í kringum bæinn eru í raun stórar. Um miðja mynd er Steinbryggjan, eins og hún var kölluð, en upp hana gekk Friðrik VIII Dankonungur í konungskomunni 1907. Þá var þarna líkt og hlið inn í bæinn.
Þarna er Tjörnin um haustkvöld. Gluggar í Miðbæjarskólanum eru uppljómaðir en við Fríkirkjuna logar aðeins á einni lukt. Húsið fjærst var reist fyrir Björn Jónsson ritstjóra og síðar ráðherra. Þar bjó sonur hans, Sveinn Björnsson forseti, og þar er nú skrifstofa forsetaembættisins.
Þarna er horft af Landakotshæð niður í átt að höfninni. Byggðin er fremur gisin þarna enn, samkvæmt myndinni er ártalið 1931. Húsin sem eru fremst á myndinni standa við Öldugötu.
Hér er loks mynd sem er titluð Reykjavík úr loftinu. Þarna sjáum við að Örfirisey er eiginlega ekki neitt neitt og Grandinn aðeins mjó ræma þangað út. Hringbrautin er enn ekki orðin til, það er Laufásvegur sem sést lengst til hægri á myndinni en Njarðargatan er þarna eins og slóði út í Skerjafjörð. Hvítu stórbyggingarnar sem eru þarna við Laufásveginn eru svokallaðar Sturluhallir. Þetta eru risastór einbýlishús með stórum görðum sem bræðurnir Sturla og Friðrik Jónsson reistu sér á árunum 1922 til 1924. Arkitektinn var Einar Erlendsson sem varð síðar húsameistari ríkisins. Á Laufásvegi 51 hefur lengi verið leikskólinn Laufásborg, en á Laufásvegi 49 var breska sendiráðið til húsa. Þar urðu óeirðir vegna landhelgisdeilunnar 1973 og voru flestar rúður í húsinu brotnar. Nú starfar þarna Íslenska auglýsingastofan.
Árásin á sendiráðið var gerð í lok fjölmenns samstöðufundar á Lækjartorgi þar sem töluðu fulltrúar allra flokka. Einhvern veginn virðast fjölmiðlar þess tíma ekki hafa gert mikið úr henni, skrílslæti þóttu líklega skyggja á samstöðuna. En þetta voru einhverjar hörðustu óeirðir sem hafa brotist út á Íslandi – ég man eftir að hafa staðið þarna sem strákur og horft á grjótið dynja á annarri Sturluhöllinni.