fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Framsókn og kosningafiðringurinn

Egill Helgason
Miðvikudaginn 16. mars 2016 22:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálaflokkar þurfa að eiga dansfélaga og miðjuflokkur eins og Framsóknarflokkurinn getur litið bæði til hægri og vinstri.

Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur í viðtali við Ríkisútvarpið í dag. Hún telur ólíklegt að ríkisstjórnin sé að splundrast þrátt fyrir margvíslegan skoðanaágreining.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra, talar í pistli á heimasíðu sinni um „gamalkunnan kosningafiðring Framsóknarmanna“, en klykkir út með þessum orðum.

Íhugi forystumenn stjórnarflokkanna ekki að boða til kosninga haustið 2016 ber það vott um skort á pólitísku hugmyndaflugi.

Hér áður fyrr hefði verið sagt að Framsókn væri farin að sýna vinstri vangann. Það var á árunum þegar Framsókn gat stokkið milli hægri stjórna og vinstri stjórna af ótrúlegri fimi.

Þetta gerðist oft og einatt. Ólafur Jóhannesson, sem þá var formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra í vinstri stjórn 1971-1974, hann var dóms- og viðskiptaráðherra í hægri stjórn 1974-1978, varð forsætisráðherra í skammlífri vinstri stjórn 1978-1979, en síðan utanríkisráðherra í stjórn sem er frekar erfitt að skilgreina (undir forsæti Gunnars Thoroddsen) 1980-1983.

Þá tók Steingrímur Hermannsson við formennsku í Framsóknarflokknum. Hann var forsætisráðherra í hægri stjórn 1983-1987, en síðan forsætisráðherra í vinstri stjórn 1988-1991. Þá tók Halldór Ásgrímsson við sem formaður og settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem lifði þrjú kjörtímabil, eða tólf ár. Það var rætt í alvöru að Framsókn færi í stjórn með vinstri flokkunum 2007 ,en af því varð ekki, í staðinn myndaði Samfylkingin stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það var kannski jafn gott fyrir Framsóknarflokkinn, því það fór afar illa fyrir þeirri ríkisstjórn.

Þannig gat Framsóknarflokkurinn ávallt unnið sitt á hvað til vinstri eða hægri. Nú gerir hann alls konar ágreining í ríkisstjórn og pirringur milli stjórnarflokkanna eykst. Ásteytingarsteinninn er til dæmis húsnæðismál, fæðingarorlof, sala banka – hlutir sem ættu í raun að falla í kramið vinstra megin á hinu pólitíska rófi.

En nú hefur orðið sú breyting, að minnsta kosti tímabundið, að Framsóknarflokkurinn á enga vænlega samstarfsflokka stjórnarandstöðumegin. Þar eru Píratar nú allsráðandi og stefna í mikinn sigur í kosningunum á næsta ári. Litlar líkur eru á að Píratar vilji starfa með Framsókn í ríkisstjórn.

Þannig er forsenda þess að Framsóknarflokkurinn geti leikið gamla leikinn eiginlega sú að hagur Samfylkingar og Vinstri grænna vænkist. Annars er flokkurinn eiginlega dæmdur til að halda áfram vistinni með Sjálfstæðisflokki, hvað sem líður óróleika í samstarfinu og kosningafiðringnum sem Björn talar um. Svo vísað sé í orð Stefaníu Óskarsdóttur á Framsókn varla neinn dansfélaga vinstra megin.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?