Við búum við það ástand að flokkarnir tveir sem eru í ríkisstjórn tala út og suður.
Um byggingu nýs spítala, um húsnæðismál, um málefni banka og sölu á þeim, verðtryggingu og nú síðast um fæðingarorlof.
Það er meira en ár til kosninga, en kannski er runninn upp sá tími að flokkar marka sér sérstöðu – einkum og sérílagi Framsóknarflokkurinn.
Kannski má segja að hann sé fremur að sýna vinstri vangann þessa dagana? Í eftirhrunspólitíkinni á Íslandi er raunar stundum erfitt að greina hvað er vinstri og hvað er hægri.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði um það á fundi á Egilsstöðum í síðustu viku að í lok kjörtímabilsins þyrfti að nýta vel góðar aðstæður í efnahagslífinu.
Það þarf að nýta fjórða árið vel til að klára stóru ókláruðu efnahagsmálin og byggja upp og sækja fram í öðru sem hefur verið vanrækt.
En það virðist vera mikill ósamhljómur milli flokkanna um hvernig eigi að nota efnahagsbatann – og ansi mikill pirringur í gangi líka.