fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Myndi einhver láta ráðherra stýra ríkissjóði án eftirlits og vilja kjósenda?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 10. mars 2016 12:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

screenshot-2015-01-28-22-27-38„Lífeyrissjóðirnir eru vafalaust oft í góðri trúa að fjárfesta í hótelum í miðborg Reykjavíkur og bera fyrir sig arðsemiskröfur. Afleiðingin er hins vegar sú að fasteignaverð fer upp úr öllu valdi, og ungt fólk hefur ekki efni á að koma þaki yfir höfuðið. Mestar líkur eru á að það leigi fyrir okurfé hjá fasteignafélögum í eigu lífeyrissjóðanna. Er ekki viltaust gefið í þessu spili?“

Árni Snævarr blaðamaður er höfundur þessarar greinar:

Af hverju er ekki sama gagnsæi og sama eftirlit með fjárfestingum lífeyrissjóðanna og fjárfestingum ríkisins? Í flestum löndum eru lífeyrisgreiðslur í raun hluti af tekjum og rekstri ríkisins. Það hefur sína galla og víða eru slík kerfi á hausnum. Hér á landi eru skyldu-iðgjöld ekki talin vera skattur, en við greiðum þau hvort sem okkur líkar betur eða verr í sjóði sem atvinnurekendur hafa í raun ráðskast með að vild. Sumir trúnaðarmanna þeirra hafa auðgast verulega með því að haga fjárfestingum sínum í takt við fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Fulltrúar launafólks hafa verið mjög hikandi við að beita áhrifum sínum. Sumpart vegna reglna þar að lútandi en kannski þó aðallega vegna ákveðins hagsmunaáreksturs. Þar takast á þau sjónarmið hvort það sé æðra að launafólk greiði sanngjörn iðgjöld eða að tryggingafélög borgi háan arð og lífeyrissjóðirnir sem eiga þau meira eða minna, tryggi afkomu sína og geti borgað launafólki mannsæmandi eftirlaun?

 

Uppreisnin gegn arðgreiðslum tryggingafélaganna sýnir hins vegar að enn fleiri sjónarmið eru á ferðinni. Sagan af Sjóva, sem Kjarninn rifjaði upp á dögunum, er til marks um að kapítalistar girnast tryggingasjóði og vilja í raun tæma þá: borga út meiri arð en ágóði félaganna réttlætir, jafnvel þótt það þurfi að taka óhagstæð lán til þess að standa straum af arðgreiðslum. Fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum trygginafélaganna hafa samþykkt þetta af ástæðum sem enginn veit hverjar eru – því þeir virðast ekki þurfa að gjalda neinum reikningsskil og verkalýðshreyfingin hefur oftast samþykkt það! Það eru út af fyrir sig gild sjónarmið (þó ég sé ósammála) að fé lífeyrissjóðanna eigi að ávaxta eins vel og hægt er, punktur og basta. Rekstur sjóðanna í aðdraganda hrunsins var hins vegar með þeim hætti, að mínu mati, að það kallar á lýðræðislegt eftirlit með rekstri sjóðanna. Lækka varð eftirlaun vegna fjárfestingafyllerís stjórna lífeyrissjóðanna. Það mun enginn samþykkja að fleygt sé tugum milljarða í kapítalista sem hentu þeim inn á reikninga á Tortóla á leið sinni upp á Kvíabryggju eða bara heim í Arnarnesið. Engum dettur í hug að afhenda skuli ráðherrum sem sækja umboð sitt til þjóðarinnar, ríkissjóð til afnota í heilt kjörtímabil, án eftirlits kjörinna fulltrúa, almennings og fjölmiðla – og án gagnsæis. Það er stigsmunur en ekki eðlis á iðgjöldum og skattfé og því ætti engum að detta í hug að kjörnir fulltrúar í stjórnum lífeyrissjóða geti ráðskast með milljarðana án þess að þurfa að taka tillits til óska þeirra sem kusu þá til stjórnarsetu.

 

Það er svo grín að saka Ólafíu Rafnsdóttur um að vera skuggastjórnanda, þegar hún kemur fram fyrir skjöldu og segir skoðun sína. Hún verður einmitt miklu frekar sökuð um vera ekki nógu skelegg og lýsa því yfir að þeir stjórnarmenn í lífeyrissjóðum sem taki þátt í „selskabstömning“ kapítalista, njóti ekki traust þeirra sem kusu þá til starfans. Ólafía, formaður VR er hin mætasta kona en henni og forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar er allt of tamt að gleyma því að þeir eru fulltrúar almennings og verða að taka þátt í samfélagslegri umræðu og láta vega störf sín og meta ekki bara í hefðbundnum fjölmiðlum heldur einnig á fjölmiðlinum Facebook. Og sá fjölmiðill hefur þann kost að vera hvorki undir járnhæl íslenskra pólitíkusa né auðkýfinga.

 

Hafi ég verið of hvass í garð forystukonu íslenskra verslunarmanna biðst ég afsökunar á því, enda má færa rök fyrir því að hún eigi á brattan að sækja vegna ofríkis atvinnurekenda og Quislinga í stjórnum lífeyrissjóðanna – fólks sem svo sannarlega ber ekki hagsmuni launafólks fyrir brjósti í störfum sínum.

 

Og þetta er í raun stærsta mál samtímans. Lífeyrissjóðirnir eru vafalaust oft í góðri trúa að fjárfesta í hótelum í miðborg Reykjavíkur og bera fyrir sig arðsemiskröfur. Afleiðingin er hins vegar sú að fasteignaverð fer upp úr öllu valdi, og ungt fólk hefur ekki efni á að koma þaki yfir höfuðið. Mestar líkur eru á að það leigi fyrir okurfé hjá fasteignafélögum í eigu lífeyrissjóðanna. Er ekki viltaust gefið í þessu spili? Er þetta það sem við viljum? Þið getið öll fundið sambærileg dæmi. Þetta er stóra málið í íslenskum samtíma en enginn talar um þetta í kjöri stjórnarmanna í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sem nú stendur fyrir dyrum. Og enginn talar um þetta heldur á vettvangi stjórnmálanna, þar sem rifist er um aukaatriði samkvæmt gamalli íslenskri venju.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“