Hér er merkilegt súlurit sem kemur frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni. Hún sýnir hlutfall innfæddra íbúa ýmissa landa sem hafa flutt burt og búa í öðum ríkjum innan OECD
Það er athyglisvert að Ísland er þarna í sjötta sæti á eftir Írlandi, Nýja-Sjálandi, Luxembourg, Portúgal og Eistlandi. Hlutfallið hjá okkur er 13,2 prósent, en 20,8 prósent á Írlandi – ríki sem hefur lengi verið þekkt fyrir mikinn útflutning á borgurum sínum.
Tölurnar eru frá 2010-2011 en birtast í nýlegri skýrslu sem nefnist Connecting with Emigrants, A Global Profile of Diasphoras 2015.
Svo er merkilegt að sjá Bretland. Hlutfall brottfluttra þar er 8,1 prósent, mjög hátt miðað við stærstu ríkin í Evrópu (Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Spánn eru mun lægri). Hlutfallið hjá Bretum er næstum jafn hátt og í tilviki Póllands þar sem það er 9,4 prósent.
Bretar kvarta sífellt undan innflutningi fólks til sín en um leið þykir þeim sjálfsagt að aðrar þjóðir taki við breskum þegnum.