Viðskiptaráð er fyrirbæri sem hættir seint að koma manni á óvart. Ekki síst fyrir hvað það er óforskammað.
Framgöngu Viðskiptaráðs frá því fyrir hrun þarf ekki að rifja upp. Nægir að rifja upp að það lét skrifa skýrslur um að allt væri í blóma í íslensku viðskiptalífi, þegar sannleikurinn var sá að allt var að hruni komið.
Í dag sendir Viðskiptaráð frá sér yfirlýsingu þar sem er fagnað sameiningu Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar.
En hvaða vit hafa forsvarsmenn Viðskiptaráðs á þessu? Hvað vita þeir um safnamál? Hvaða þekkingu hafa þeir á fornleifarannsóknum eða minjavernd?
Viðskiptaráð hefur líka ályktað að rétt sé að sameina eftirfarandi söfn:
Listasafn Einars Jónssonar, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Hljóðbókasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands.
Aftur spyr maður, hvaða þekking býr þarna að baki? Hvaða athugun? Hvaða menningarlegi bakgrunnur? Eða er þetta kannski ekki annað en dæmi um viðskiptafræðinga sem færa til tölur í excel-skjölum?