fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Horft upp Vegamótastíg 1956

Egill Helgason
Þriðjudaginn 23. febrúar 2016 12:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta er frábær mynd frá horfinni Reykjavík, mun vera tekin 1956.  Þarna er horft upp Vegamótastíg frá Laugavegi. Til hægri er Laugavegur 16, Laugavegsapótek. Í hluta af því húsi er nú hótel – hvað annað? Nú stendur til að stækka hótelið, rífa hús neðar við Laugveginn og byggja með tilheyrandi raski. Raunar er atgangurinn við Laugaveginn þessa dagana ekki eðlilegur.

Á myndinni eru líka mörg hús sem urðu niðurrifi að bráð.

Þar er fyrst að telja húsið til vinstri, fremst á myndinni, Laugaveg 18. Það hvarf fáum árum síðar þegar reis þarna hús Máls & menningar í módernískum stíl, sumir segja að það hafi verið að hluta til fyrir fé frá kommúnistaríkjum, enda fékk húsið snemma heitið Rúblan.

Það er merkilegt þegar skoðaður er arkitektúr þessara ára að hús Máls & menningar, þar sem rauðliðar réðu ríkjum, og hús Morgunblaðsins, höfuðvígi íhaldsins, eru býsna svipuð. Bæði eru þau í mjög eindregnum módernískum stíl, en arkitektarnir komu af hvor af sínum stað í hinu pólitíska litrófi.

Hús sem er næst fyrir ofan Laugaveg 18 var líka rifið og raunar mestöll húsalengjan. Efst sést glitta í Tobbukot, en þar er nú hús sem kennt var við hinn andaða Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Þessi bygging hýsir nú bókaverslun Eymundssonar.

Í Tobbukoti bjó Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir, systir Benedikts, sem var faðir Einars Benediktssonar. Þar var líka frænka hennar Ólafía Jóhannesdóttir sem síðar fékk þá köllun að líkna föllnum konum í Osló. Báðar voru kvenskörungar miklir.

Það má sjá að enn er turnspíra á stórhýsinu Skólavörðustíg 16. Nú er það kollótt.

Ofar í götunni hægra megin voru merkilegar byggingar sem sjást ekki. Í porti bak við apótekið, þar sem nú er veitingahúsið Vegamót, var gatnamálastjóri með aðsetur og líka meindýraeyðir Reykjavíkurborgar.

Ofar, þar sem nú er ruslageymsla Ölstofu Kormáks & Skjaldar, var pisseoir – um slíka starfsemi er yfirleitt haft þetta franskættaða orð – þangað sem karlar gátu farið og kastað af sér vatni. Þetta var ekki annað en lítill steinklefi með þartilgerðri þró, lyktin var þeygi góð.

Um þennan stað orti Megas síðar kvæðið sem hefst svona:

Í skoti utan í grjótinu
anganþrungnu, þríhyrndu

 

Apríl 1956, horft upp Vegamótastíg frá Laugavegi. T.v. er Laugavegur 18 og t.h. er Laugavegur16, Laugavegs apótek. Við enda götunnar er Tobbukot sem stóð á lóðinni við Skólavörðustíg 11, í baksýn er turnbyggin, Skólavörðustígur 16. *** Local Caption *** Laugavegur 16, Laugavegur 18, húsið var flutt af lóðinni síðar, Skólavörðustígur 11, Skólavörðustígur 16

 

Myndin er úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur, tekin af ágætum frænda mínum, Andrési Kolbeinssyni, miklum hæfileikamanni, ég minntist hann í grein þegar hann dó 2009.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina
Eyjan
Í gær

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum