Tveir stórir sjónvarpsatburðir um þessa helgi sýna hversu Ríkisútvarpið á stóran sess í lífi þjóðarinnar. Um varla annað hefur verið rætt á mannamótum og í samskiptamiðlum en frábæra útsendingu frá söngvakeppninni í Laugardalshöll og hver sé morðinginn í Ófærð.
Mjög stór hluti landsmanna sat fastur við sjónvarpstækin bæði laugardags- og sunnudagskvöld, ungir sem aldnir. Þessa sjást glöggt merki í stanslausum umræðum á samskiptamiðlum. Fólk reynir líka að finna alls konar veilur í þessu. Það er meira að segja reynt að fá Íslandinga til að þegja yfir málalyktum í Ófærð.
Þetta sýnir líka glöggt að tal um að línulaga dagskrá í sjónvarpi sé búin að vera er allsendis ótímabært. Þvert á móti skynjar maður ákveðna þörf þjóðar til að njóta sameiginlegrar menningarupplifunar. Það er allt gott að segja um valfrelsi, en menningarheimur sem brotnar upp í frumparta, þar sem hver er úti í horni að sýsla við sitt, er ekki alltaf spennandi.
Eitthvað segir manni að umræður um helgina í sjónvarpi muni halda áfram í dag – og það er bara jákvætt.