Það er ekki svo að þótt menn séu krítískir á búvörusamninga sem eru gerðir bak við luktar dyr, tilkynntir eins þeir séu orðinn hlutur, virðast vera ávísun á stöðnun, eiga að vera til tíu ára og kosta risastórar fjárhæðir, séu þeir ósjálfrátt í liði með verslunarveldinu Högum.
Því miður stillir forsætisráðherra þessu svona upp. Fyrir stjórnmálamann getur slíkt auðvitað verið þægilegt.
Hagar er keðja verslana sem skilar ofurhagnaði og er sífellt að leita að stærri markaðshlutdeild. Búðirnar eru flestar lélegar, með hálfónýtu grænmeti, slöppu kjöti og fiski, lítið af ferskri vöru og þar er yfirleitt aldrei að finna starfsmenn sem maður getur treyst á að hafi vit á því sem verið er að selja. En verð á sumum vörum er vissulega lágt á íslenskan mælikvarða.
Þetta er ekki svona – annað hvort Hagar eða búvörusamningur. Málið er stærra og flóknara en það, veruleikinn miklu blæbrigðaríkari. Kjör bænda eru ekki nógu góð í núverandi kerfi, milliliðir fá alltof mikið til sín, framleiðslan er of miðstýrð, einkaframtak fær ekki að njóta sín – sumt er gamaldags og ætti að vera úrelt.
Það er líka alveg ástæðulaust að nefna Icesave í tíma og ótíma. Sem rök fyrir búvörusamningi eða rök á móti búvörusamningi. Icesave kemur þessu nákvæmlega ekkert við.