Ég var í upptökum fyrir Kiljuna í gömlu herstöðinni á Miðnesheiði í dag. Umhverfið þar er alltaf jafn dapurt, og húsin einkennilega ljót – þetta eru staðlaðar byggingar sem verktakar reistu fyrir bandaríska herinn. En húsin hafa þó nýst eftir að herinn fór.
Ein af fréttunum sem flaut framhjá mér þegar ég náði að kíkja á netið í dag var að nú stæði til að fylla þarna fjórar til fimm blokkir af verkamönnum frá Póllandi sem hingað kæmu til að anna bráðri þörf á vinnuafli á Íslandi.
Það hefur margsinnis verið sagt að við þurfum mörg þúsund starfsmenn frá útlöndum til að geta staðið undir öllum ferðamannastraumnum. Kannski tugi þúsunda.
Á sama tíma er verið að reka burt menn sem hafa verið hér árum saman. Þeir eiga að fara strax í nótt, fengu sama og engan tíma til að hypja sig.
Einn starfar á gamalgrónu veitingahúsi, eigandi þess ber honum vel söguna og er miður sín vegna brottrekstrarins sem og aðrir vinnufélagar hans.
Annar er á þriðju önn í Tækniskólanum, sjálfur skólastjórinn mælir með því að hann fái að vera áfram, er að ná tökum á íslensku, á íslenska unnustu sem segir að hann hafi gengið dætrum sínum í föður stað.
Þetta náttúrlega stenst engan veginn. Straumur vinnuafls inn, mikið af því í gegnum heldur vafasamar starfsmannaleigur, en svo er öðrum hent út. Og líka fólki sem hefur dugað vel.