Það verður að segjast eins og er að frekar er það máttleysislegt að ráðast á Pírata vegna umræðu um borgaralaun. Píratrar hafa auðvitað ekki lagt fram neinar tillögur um að taka upp borgaralaun, en þetta er mál sem er sjálfsagt að ræða – tengist einfaldlega umræðu sem fer fram víða um heim.
Við lifum í heimi þar sem alls kyns bótakerfi eru orðin mjög viðamikil og dýr. Samhliða hefur það gerst að tæknivæðing tekur yfir störf sem áður voru unnin af mannshöndinni. Hvað á að gera við fólk sem á enga möguleika á vinnumarkaði, vart er hægt að dæma það til allsleysis? Svo hefur það líka gerst víða að réttindi vinnandi fólks hafa minnkað, í Bandaríkjunum þarf hluti vinnuaflsins líka að þiggja félagslega aðstoð til að ná endum saman. Það er stundum sagt að stærsti bótaþegi í Bandaríkjunum sé verslunarrisinn WalMart, ríkið niðurgreiðir vinnuafl fyrir þetta ógeðfellda fyrirtæki.
Það hefur reynst erfitt fyrir stjórnmálamenn að ná taki á Pírötunum, tilraunir til þess hafa oft virkað frekar aumlegar, og því stökkva þeir á borgaralaunin. En í raun sýnir þetta bara að Píratarnir eru opnari fyrir því sem er að gerast úti í víðri veröld og fylgjast betur með þjóðfélagsumræðu en flestir úr gömlu flokkunum.
Jóhannes Björn skrifar um þetta í athugasemdakerfi hér á Facebook:
Borgaralaun hafa verið til umræðu í mörgum löndum og því varla óeðlilegt að Íslendingar skoði það mál líka. Það er aðeins verið að reyna að koma höggi á Pírata með þessum upphrópunum. Hitt er svo annað mál að það eru litlar forsendur fyrir borgaralaunum á Íslandi. Hagkerfi hátækni í löndum eins og Sviss og Þýskalandi sjá fram á hraða sjálfvæðingu og gífurlegt atvinnuleysi í kjölfar hennar. Þessi hagkerfi eru að leita leiða til þess að mæta alveg nýjum raunveruleika. Róbótar eiga seint eftir að skapa slík vandamál í okkar hagkerfi og við ættum, sem betur fer, að hafa miklu meiri sveigjanleika en flestir til þess að virkja vinnuafl annars staðar.
Ætlunin virðist vera að reyna að koma því inn hjá kjósendum að Píratar séu einhvern veginn fjarri veruleikanum. En það er voða erfitt að halda því fram – og reyna að sannfæra kjósendur um það – að Píratar séu eitthvað veruleikafirrtari en hinir flokkarnir.
Og þegar horft er á sjálftökuna og græðgina í Landsbankanum/Borgun, Arionbanka/Símanum, Straumi/ALMC – fyrir utan alla meðgjöfina með stórútgerðinni – þá er eiginlega hálf holur hljómur í þeim orðum þingmanns sem tjáir sig um borgaralaun að „fullfrískt fólk eigi ekki að vera þiggjendur“.