Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að þetta sé árið þegar túristafárið á Íslandi fer alveg yfir strikið. Vissulega hellast inn peningar, en álagið er mikið og það er farið að ríkja mikið stjórnleysi. Er hugsanlegt að við séum að missa tökin?
Morgunblaðið greinir frá því í dag að í smíðum séu 3500 hótelherbergi. Segir að bak við þetta séu „fjársterkir aðilar“ – það hefur verið ein ráðgátan hverjir leggja fé í allar þessar framkvæmdir. Satt að segja virðist margt af því helgast af braski – rétt eins og fyrir hrun. Það er ekki alltaf þekkingunni eða einlægum áhuga á að gera vel til að dreifa. Hlutur lífeyrissjóða er sérstakt rannsóknarefni.
Miðborgarsvæðið í Reykjavík er að verða eins og einn byggingarreitur. Hlutar af henni eru sérlega óaðlaðandi vegna þessa, sérstaklega í kringum Laugaveginn. Arkitektúrinn er yfirleitt heldur dapurlegur, það er reynt að byggja sem mest fyrir sem minnst fé – víða er mikið rask vegna framkvæmda. Síðasta dæmið er gríðarlegur kjallaragröftur neðst á Laugavegi, en þar þjást nágrannar vegna hrikalegs hávaða og látlausra borhögga. Þetta er gert til að skaffa fjárfestum nokkra aukafermetra við verslunargötuna, en ber vott um mikið tillitsleysi gagnvart nærumhverfinu.
Hingað mun næstu misserin streyma erlent starfsfólk til að vinna í ferðamannaþjónustu. Þetta verður ekki gert án útlendinga. Mikið af þessum vinnukrafti fer í gegnum starfsmannaleigur, fólkið kemur hingað, staldrar stutt við, fær skítalaun. En svo vilja menn ganga ennþá lengra, því samkvæmt fréttum er mikil sókn eftir því að fá starfsmenn í ólaunuð störf, sérstaklega ungt fólk. Manni virðist þetta algjörlega fjarstæðukennt, en samt er það satt.
Svo er það ástandið úti á ferðamannastöðunum. Það birtast fréttir um slys á þjóðvegum og ferðamenn sem botna ekkert í hættunum í íslenskri náttúru, slasast eða bíða bana.
Friðrik Brekkan er margreyndur leiðsögumaður ferðamanna, hann hefur fengist við slíkt staf í marga áratugi. Friðrik skrifar harða ádrepu á Facebook, þar sem hann fjallar um ástandið við Jökulsárlón, Gullfoss, Geysi, Skógarfoss og í Reynisfjöru. Friðrik spyr líka hvar ferðamálastjóri sé og Stjórnstöð ferðamála sem var kynnt með pompi og prakt í fyrra:
Alltaf sami molbúahátturinn, stjórnmálamenn baða sig í ljómanum á ferðamannastraumnum og gefa fallegar yfirlýsingar um til dæmis ÍSLAND ALLT ÁRIÐ snakkið, en svo er allt í tómu rugli á helztu ferðamannastöðunum. KAOS við Jökulsárlón, bílar útaf og fastir um allt á plani og víðar, planið við Skógafoss til stórskammar og svo framvegis, hálka við Geysi, hálka við Gullfoss etc etc. Ferðamenn detta og slasast.
Einn ágætis lögreglumaður í dag og í gær við Reynisfjöru og ræður ekki neitt við ástandið. Hann gengur á milli manna og rútubíla af góðum hug og eljusemi og kannar hvort allir viti að fjaran sé hættuleg og hvort menn hafi varað ferðamenn við. EINN maður ræður ekki við að miðla slíkum upplýsingum og fá menn til að hlýða. Þetta er bara sýndarmennska og enn eitt kákið án eftirfylgni.
Fyrir nokkrum dögum drukknaði einn í Reynisjöru og í dag drukknuðu næstum því þrír, sem tókst á siðustu stundu að bjarga inn í hellinn.
ENGINN ferðamaður hlýðir nokkrum sköpuðum hlut. Þeir gera bara það sem þeim hentar. Ef þeir sjá hest við þjóðveginn þá er hemlað og farþegar bílaleigubifreiðarinnar ganga út á þjóðveg til að mynda viðkomandi hest og skapa þannig stórhættu fyrir aðra vegfarendur um leið.
Ekki hef ég heyrt orð af viti frá embættismanninum Ferðamálastjóra og ekkert sézt af viti hingað til frá yfirmanni Stjórnstöðvar ferðamála. Auðvitað skilur maður þetta fólk. Þau eru búin að fá skotheld embætti og þurfa svosem ekkert að tjá sig fram að eftirlaunatímanum. En allir sem við þetta starfa..á plani…vita hversu alvarlegt og subbulegt ástandið er gæðalega séð. Myndirnar eru frá afleggjaranum að Jökulsárlóni í gærdag: