Bréf Árna Páls Árnasonar til flokksmanna í Samfylkingunni þar sem eru játuð alls kyns mistök í ríkisstjórninni 2009 til 2013 kemur náttúrlega ansi seint. Stjórnmálaflokkur með góðu og heilbrigðu starfi hefði farið í svona endurskoðunarvinnu strax eftir að hann beið afhroð í kosningunum 2013. Í staðinn settist nokkuð aldraður og móður flokkur inn á þing, mun smærri en áður, og gerði voða lítið í „sínum málum“.
Nú er komið árið 2016, formaðurinn hefur setið í þrjú ár.
Þessi mál hefði líka mátt ræða á landsfundinum í fyrra, þegar Árni var endurkjörinn formaður með einu atkvæði, en í stað snerist hann um mótframboð frá þingmanninum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem dúkkaði upp á síðustu stund, umræðu- og undirbúningslaust, og líktist fremur tilraun til hallarbyltingar. Það var flokknum ekki til framdráttar.
Nú er Árni kominn alveg út í horn og boðar til umræðu um mistök varðandi ESB, Icesave, skuldamál heimilanna, endurreisn banka, kvótann og stjórnarskrá. Öll stóru málin frá síðasta kjörtímabili. Syndaregistrið virkar langt og stórt og hann setur flokksfélaga í ansi erfiða stöðu með þessu – þegar er innan við ár áður en baráttan fyrir næstu kosningar byrja og þangað til verður stillt upp á framboðslista. Þetta er sannarlega ekki upptakturinn sem flokkur vildi vera í fyrir kosningar, naflaskoðun með tilheyrandi sálarangist.
Fylgi Samfylkingarinnar er lítið núna, og það er alveg möguleiki á að það lækki enn. Það er afar ólíklegt að þrátt fyrir þetta útspil nái Árni að vera formaður áfram. Sagt er að nýir vendir sópi best, en það er lítið af þeim í sjónmáli í Samfylkingunni. Hugsanlega þarf Katrín Júlíusdóttir að taka að sér djobbið, en hún var líka í hópnum sem gerði öll þessi mistök samkvæmt Árna Páli. Og það er alls ekki víst að fylgið aukist þótt hún verði formaður.
Að sumu leyti má samt segja að þetta sé klókt útspil hjá Árna frá sjónarhóli innanflokksátaka. Hann beinir sjónum að félögum sínum í flokknum í stað þess að sitja einn uppi með skömmina eins og hann hefur gert um hríð. Það er svo annað mál hvernig þetta virkar útávið. Væri kannski hægt að segja að þarna staðfestist illur grunur um Samfylkinguna – og að kannski sé allt rétt sem Sigmundur Davíð hefur sagt um flokkinn? Formaðurinn sé barasta sammála því.