Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag er líklega náðarhöggið fyrir frumvarp um að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum.
Niðurstöðurnar eru mjög afdráttarlausar. Af þeim sem afstöðu taka eru 62 prósent andvíg, 38 prósent eru fylgjandi. Konur eru andvígari en karlar, það skiptir máli.
Reyndar er það svo að í Fréttablaðskönnunnni er einungis spurt um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. En frumvarpið sem nú er fyrir Alþingi gengur enn lengra, þar er líka gert ráð fyrir sölu á sterku víni.
Hugsanlegt er að andstaðan væri enn meiri ef spurt væri um það.
Andstaða gegn sölu áfengis í matvörubúðum hefur aukist verulega – meðfram því sem hefur verið mikil umræða um þetta efni. Það segir manni einfaldlega að þeim sem vilja auka frelsi í áfengisverslun hefur mistekist ætlunarverk sitt, þeim hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina. Þvert á móti.
Málið er nú fyrir Alþingi. Ólíklegt er að þingmenn verði spenntir að samþykkja frumvarpið við þessar aðstæður. Þingið getur snúið sér að næsta máli.