fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Frelsa oss frá illu

Egill Helgason
Fimmtudaginn 8. desember 2016 12:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Besta greinin í fjölmiðlunum daginn sem fréttir berast um að Donald Trump hafi skipað þekktan loftslagsafneitara sem yfirmann umhverfisstofnunar Bandaríkjanna er eftir Þóri Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprest. Hún birtist í Fréttablaðinu. Þórir lætur í ljósi miklar áhyggjur af þróun heimsmála:

Eitt af því, sem nú virðist geta leitt til mikillar hættu á alþjóðavettvangi, er afleiðingar forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Megi taka mark á orðum Donalds Trump sýnist auðsætt, að hugsanir hans og framkvæmdir geta orðið ein mesta vá sem að mannkyni gæti steðjað. Reynist orð hans hins vegar ekki marktæk, er ljóst að hann er í senn ómerkilegur undirróðursmaður og bullukollur eða jafnvel loddari, sem ekki er óhætt að trúa fyrir stjórn voldugasta ríkis jarðar.

Þórir fjallar um hvernig Trump stjórnaði kosningabaráttunni með fúkyrðum og stórum fullyrðingum og segir um orðaval hans:

Þau voru þar að auki svo þrungin illvilja og mannfyrirlitningu, að býsna langt þarf að leita til mannjafnaðar. Í því, sem fréttir hafa borið mér, hefur aðeins í einu máli örlað á hugsjónum, sem gætu hvatt þjóð hans í sólarátt, en það er um aukinn möguleika fátæks fólks til að koma börnum sínum til mennta. Málflutningur hans hefur miklu fremur höfðað til hinna lægri hvata, sem ala upp girnd og grimmd, öfl myrkursins. Og þau hrósuðu sigri.

Hér er ekki hægt að nefna nema fátt af því sem hann boðaði. Stefnan í málum innflytjenda er ekki í takt við boðskap kristninnar um bróðerni og samhjálp, sem heimurinn þarfnast svo mjög. Þar eru mannfyrirlitning og rasismi samferða.

Loftslagsmálin nefnir séra Þórir líka og er ómyrkur í máli:

Loks eru það loftslagsmálin. Trump segir, að hlýnun jarðar sé kínverskur uppspuni. Hann ætlar ekki að gera neitt með Parísarsamkomulagið, sem 195 ríki standa að. Gangi það eftir, tel ég það vera glæp gegn mannkyni.

Þórir Stephensen er fæddur 1931. Hann er áttatíu og fimm ára. Maður leggur við hlustir þegar slíkur öldungur talar. Hann hefur líka áhyggjur af skoðanabræðrum Trumps sem sé að finna meðal nágranna- og vinaþjóða okkar Íslendinga:

Rasistar, nasistar, fasistar og hægri pópúlistar í Evrópu, sem eiga vaxandi fylgi að fagna, skynja bergmál skoðana sinna í boðskap Trumps. Sænskir nasistar hafa, vegna sigurs hans, farið í einhverja sína glæsilegustu fánagöngu til að fagna því sem þeir kalla upphaf byltingar í þeirra anda. Vonandi reynist það ekki rétt, en við skulum ekki gleyma því, að Hitler var líka kosinn á sinni tíð. Veikburða viðleitni íslenskra rasista til að komast á þing í haust mistókst. En við megum búast við, að það verði reynt aftur.

Vegna framtíðar manns og heims verðum við öll að leggja áherslu á síðustu bæn Faðirvorsins: „ …frelsa oss frá illu,“ og fylgja henni eftir í orði og verki.

 

ar-151229171

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum