fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Guðni Th. og fyrirmyndin frá Kristjáni Eldjárn

Egill Helgason
Þriðjudaginn 6. desember 2016 23:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Th. Jóhannesson er nýbúinn að gefa út bók um fyrstu forseta lýðveldisins, fram að Ólafi Ragnari Grímssyni. Manni sýnist að Guðni horfi helst til hins Kristjáns Eldjárn um fyrirmynd að því hvernig hann gegnir embættinu – þótt auðvitað séu aðrir tímar.

Það er ekki leiðum að líkjast, Kristján var ástsæll forseti, naut hylli og virðingar alla tíð. Einna mest reyndi á Kristján á árunum 1978 til 1980 en þá var mikill órói í stjórnmálunum.

Í kosningum sumarið 1978 unnu Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur stórsigur, en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn sem höfðu setið í stjórn töpuðu miklu. En það gekk treglega að mynda stjórn. Umboðið gekk milli flokksformanna, en svo var röðin komin að Lúðvík Jósefssyni, formanni Alþýðubandalagsins.

En þetta mæltist afar illa fyrir á hægri væng stjórnmálanna. Guðni Th. Jóhannesson skrifar eins og lesa má á vefsíðu forseta Íslands:

Forystugrein Morgunblaðsins næsta morgun hófst með þessum orðum: „Þá hefur forseti Íslands orðið við kröfu Lúðvíks Jósepssonar og kommanna um að hann geri tilraun til stjórnarmyndunar.“ Þessum orðum snöggreiddist forseti. Hann hringdi í Matthías Johannessen, fékk upp úr honum að hann hefði haldið á penna og sleit þá samtalinu.

Hinn kurteisi Kristján skellti semsagt á ritstjóra Moggans.

Lúðvík gat ekki myndað stjórn, við því var ekki að búast, en loks var byggð brú – þó ekki nema tímabundið – milli Alþýðubandalags og Alþýðuflokks. Framsókn, sem hafði beðið afhroð í kosningunum, fékk forsætisráðuneytið. Það var kaldhæðnislegt, kratar og kommar, eins og þeir voru þá kallaðir, gátu ekki unnt hvor öðrum að komast í hið háa embætti.

Stjórnin entist líka ekki nema ár. Þá tók við önnur torsótt stjórnarmyndun.

En Guðni Th., sem skráir þessa sögu og er afar meðvitaður um hana, virðist fylgja línu Kristjáns. Eftir Sjálfstæðisflokk og VG er röðin komin að Pírötum hjá honum. Þeir fá stjórnarmyndunarumboðið, verandi þriðji stærsti flokkurinn. Það eru litlar líkur á að þeir geti myndað stjórn – þótt ekki sé útilokað að þeir geti byggt brýr sem gætu leitt til stjórnarmyndunar.

Guðni sagði í þingsetningarræðu sinni í gær og áréttaði tengsl sín við Kristján:

Kristján Eldjárn hafði að leiðarljósi við stjórnarmyndanir að enginn flokkur yrði útilokaður. Fyrstur forseta fól hann formanni þess flokks sem lengst stóð til vinstri í stjórnmálum formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Sætti hann þá ámæli en ég hygg að dómur sögunnar sé að þar hafi Kristján gert rétt. Þegar enginn virðist vera öðrum líklegri til að geta myndað ríkisstjórn hljóta fleiri sjónarmið að koma til álita. Á Alþingi Íslendinga eiga allir þingmenn og þingflokkar að vera jafn réttháir.

Píratar hafa þó varla umboðið lengi, maður sér ekki að málin þokist mikið áfram með þá í bílstjórasætinu. Það eru engar formlegar viðræður í gangi um stjórnarmyndun. Bjarni Benediktsson er aftur farinn að bera víurnar í Viðreisn og Bjarta framtíð. Þessir flokkar vilja alls ekki ganga til nýrra kosninga strax. Tæplega er ástæða til að Píratar hafi umboðið út alla vikuna, eins og heyrst hefur nefnt.

Að hverjum kemur þá? Samkvæmt aðferð Guðna – og Kristjáns – ætti það að vera Framsóknarflokkurinn, fjórði stærsti flokkurinn. Líkurnar á að Framsókn nái að mynda stjórn eru að sönnu ekki miklar. Eða myndi Guðni geta gengið framhjá Framsókn og leitað til Viðreisnar, fimmta stærsta flokksins?

Og svo er spurningin hvenær Guðni fer að nefna möguleikann á utanþingsstjórn – þá fyrst væntanlega sem svipu á flokkana um að koma sér saman um stjórnarmyndun?

 

7e777426a83b326

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum