Þetta er flott lag með Leon Russell. A Song for You. Hann er látinn 74 ára. Mín kynslóð sá hann fyrst á Bangla Desh tónleikum Georges Harrison. Þar var hann í stóru hlutverki. Var svo giska vinsæll um tíma. Það voru allavega tvær plötur með honum sem voru til í ýmsum plötusöfnum upp úr 1970.
Hann var hljómsveitarstjórinn í frægum túr Joes Cocker og félaga sem gekk undir heitinu Mad Dogs & Englishmen. Samnefnd plata varð mjög vinsæl á sínum tíma. Þar var lag eftir Russell sem nefndist Superstar – varð seinna mjög vinsælt með The Carpenters. Hann samdi fleiri lög fyrir aðra tónlistarmenn, en hann var líka stúdíómúsíkant, lék á píanó plötum með Beach Boys, Sinatra, Dylan og Rolling Stones. Og Bítlar komu fram á plötunum hans.
Hann var nokkuð einstæður karakter með sítt síða hár og skegg sem gránaði og hvítnaði síðan – en hann lét vera að skerða það. Flutningurinn á þessu lagi er með ósvikinni tilfinningu – það er svo dálítið flott augnablik er hann sýgur sígarettuna í lok lagsins.