Ég segi eins og er að mér hefur fundist umræðan um misjafnan hlut kynþátta á Óskarverðlaununum heldur einfeldnisleg. Það er talað um að þarna komist eiginlega bara að myndir um hvíta miðaldra karla. En við þurfum kannski líka að skoða hvers konar myndir þetta eru?
Þarna eru fremstar tvær framúrskarandi myndir sem mætti segja að séu grjóthörð ádeila, báðar að miklu leyti sannsögulegar. The Big Short dregur sundur og saman í háði gjörsamlega ábyrgðalaust fjármálakerfi sem hefur sagt skilið við siðferði og samfélagsvitund – nærist á blekkingum og spákaupmennsku. Eina markmiðið er skjóttekinn gróði En alvaran sem er undir niðri dylst ekki. Þeir sem þurfa mest að gjalda fyrir spilavítiskapítalismann er fólkið sem stendur neðar í þjóðfélagsstiganum.
Svo er það Spotlight sem er jafnvel talin líklegust til að hljóta Óskarsverðlaunin. Hún er komin í sýningu í íslenskum kvikmyndahúsum. Þetta er máski ein mikilvægasta kvikmynd síðari ára, því þarna er afdráttarlaust sýnt mikilvægi þess að hafa gagnrýna og öfluga fjölmiðla sem geta tekið á samfélagsmeinum.
Í þessu tilviki er meinið stórfellt barnaníð meðal klerka kaþólsku kirkjunnar. Já, glæpi sem voru yfirleitt framdir af hvítum miðaldra körlum í skjóli stofnunar sem taldi sig ósnertanlega – gegn varnarlausum börnum sem oftast komu frá efnalitlum heimilum þar sem var lítil fyrirstaða.
Myndin er gerð í raunsæisstíl, hún er hröð og alltaf spennandi. Líka allar senurnar sem gerast inni á skrifstofum dagblaðsins Boston Globe sem kom upp um athæfi prestanna og yfirhylmingu kirkjunnar með greinum sem tóku að birtast 2002. Spotlight var rannsóknarblaðamennskuteymi innan blaðsins. Eftir kom skriðan – það varð uppvíst um barnaníð innan kirkjunnar út um allan heim. Kaþólska kirkjan hefur langt í frá jafnað sig á þeim álitshnekki.
Þetta er mynd um rannsóknarblaðamennsku, minnir talsvert á klassíska mynd um sama efni, All the President’s Men, sem fjallaði um hlut Washington Post í að koma upp um Watergate-hneykslið. En um leið verður maður svolítið áhyggjufullur við að horfa á Spotlight. Fjölmiðlum sem geta stundað alvöru blaðamennsku af þessu tagi – haft blaðamenn í sama verkefninu svo mánuðum skiptir – fer mjög fækkandi. Blöð leggja upp laupana og veikjast, internetblaðamennska byggir á snöggum fréttum sem fá sem flesta smelli á sem stystum tíma, fréttastöðvar í sjónvarpi byggja æ meir á skoðunum og linnulausri umfjöllun allan sólarhringinn – sem yfirleitt skortir alla dýpt.
Það er ekki gott. Því eins og við erum rækilega minnt á í Spotlight eru sterkir og sjálfstæðir fjölmiðlar algjörlega nauðsynlegir í lýðræðissamfélagi.