Ég held satt að segja að það sé alveg nýtilkomið að fara að kalla stórbyggingu úti í Örfirisey „Marshallhúsið“.
Þetta er stórglæsileg bygging, hefur verið gerð afar fallega upp, og á nú að hýsa myndlist. Það er ljómandi vel til fundið.
Og það má alveg kalla það Marshallhúsið, en þarna var upprunalega svokölluð Faxaverksmiðja. Hún var reist stuttu eftir stríð til að taka á móti síld sem þá hafði gengið alla leið í Faxaflóa og upp í Hvalfjörð. Það voru Reykjavíkurborg og Kveldúlfur, fyrirtæki Thorsara, sem stóðu fyrir byggingu verksmiðjunnar.
En Hvalfjarðarsíldin brást og þarna var lengstum önnur starfsemi, meðal annars grútarbræðsla sem fylgdi óþefur sem lagði yfir allan bæinn. Brælan heyrir sem betur fer sögunni til. Húsið var satt að segja frekar óhrjálegt á löngu tímabili.
Að einhverju leyti var Marshallfé notað til að byggja verksmiðjuna, eins og kemur fram í þessari þingræðu Bjarna Benediktssonar frá 1955. Sagan af Íslandi og Marshallpeningum er merkileg. Við fengum úthlutað ríflega af þeim, að minnsta kosti ef litið var til þess tjóns sem Íslendingar höfðu orðið fyrir í stríðinu í samanburði við aðrar þjóðir.
En Íslendingar voru fljótir að eyða Marshallhjálpinni, hún fór meðal annars í að kaupa togara og í framkvæmdir eins og Sogsvirkjun. Fljótt voru Íslendingar þó aftur komnir með efnahag sinni í höft, það urðu framfarir á ýmsum sviðum en efnahagsóstjórnin var landlæg og sérkennileg.
Marshallaðstoðin var kennd við George Marshall, hershöfðingja og síðar utanríkisráðherra. Hann fór til Evrópu 1947 og sá með eigin augum hversu ástandið var slæmt. Marshall kom heim og setti saman áætlun ásamt Truman forseta. Markmiðið var að örva hagvöxt í Evrópu, bjarga álfunni frá óstöðugleika og örbirgð og því að lenda e.t.v. undir hæl kommúnista.
Reyndar bauðst ríkjum Austur-Evrópu fyrst að vera með, en Stalín bannaði það – Marshalláætlunin var ein ástæða þess að Sovétríkin hertu tökin í Berlín. Þarna má jafnvel líka greina upphafið að Evrópusambandinu. Kommúnistar í austri stofnuðu viðskiptabandalagið Comecon. Íslenskir sósíalistar voru líka hatrammlega á móti Marshalláætluninni eins og sjá má í Þjóðviljanum í janúar 1949.
Marshall sjálfur fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir vikið. Áætlun hans svínvirkaði. Um 1950 var Evrópa komin á langa braut hagvaxtar og bættra lífskjara – eftir langt tímabil þar sem hafði verið fyrst kreppa, síðan styrjöld og svo ár glundroða eftir stríð. Kommúnistaógninni var bægt frá.
Reyndar hefur verið nefnt í seinni tíð að nauðsyn sé að Bandaríkin fari aftur að skipta sér meira af Evrópu – og að jafnvel þurfi einhvers konar nýja Marshall áætlun. Bandaríkin hafa sýnt Evrópu lítinn áhuga á tíma síðustu forseta. Evrópusambandið er í upplausn, þar er hver höndin uppi á móti annarri. Líklegt er að Bretar gangi þaðan út sem verður mikið áfall fyrir samvinnuna í álfunni, flóttamenn streyma inn og viðbrögðin eru vægast sagt fálmkennd, mikil hryðjuverkaógn vofir yfir, en í austri gerast Rússar mjög herskáir. Það þarf að gera átak til að ná ríkjum Suður-Evrópu upp úr skuldafeni – og til að hefta framgöngu popúlista og hægriöfgamanna í álfunni.
Natalie Nougayrède, fyrrverandi ritstjóri franska dagblaðsins Le Monde, skrifar í Guardian og segir að eitt höfuðmarkmið Bandaríkjanna í utanríkismálum hafi allt frá stríðinu verið friðsöm, lýðræðisleg og sameinuð Evrópa. Þetta hafi ekki verið af einskærri góðsemd, heldur vegna þess að það þjóni hagsmunum Bandaríkjanna. Nougayrède segir að krísan í Evrópu sé svo margháttuð að Bandaríkin þurfi að koma til aðstoðar. Ef stjórn Obama geri það ekki, þá þurfi næsta stjórn að taka af skarið.
Nougayrède skrifar:
Þegar Marshall útskýrði áætlun sína í ræðu í Harvard, sagði hann að „hún myndi endurreista traust þjóða Evrópu á framtíð landa þeirra og á Evrópu sem heild“. Þennan anda þarf að endurvekja.
George Marshall, hershöfðingi og utanríkisráðherra, 1880-1959. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels og nú virðist hann ætla að fá hús í Reykjavík nefnt eftir sig.