Það er merkileg niðurstaða úr fjölmennum foringjaþætti í sjónvarpi, upphafsþætti kosningabaráttunnar, að sigurvegarinn hafi verið miðaldra kona sem enginn þekkir og úr allsendis ókunnum flokki.
En það virðist vera samdóma álit að Inga Snæland hafi borið af í þættinum. Hún talaði vafningalaust, án tæpitungu. Það rann allt í einu upp fyrir mér hvenær ég hafði séð hana áður á sjónvarpsskermi, jú, í Idol söngkeppninni fyrir löngu. Inga virkaði eins og venjuleg manneskja, og það er kostur, hún er öryrki og að miklu leyti blind. Hún talar fyrir Flokk fólksins – ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki heyrt minnst á hann áður.
Annars varð það Bjarni Benediktsson sem kom sterkast út úr þættinum. Hann er stór og mikill á velli, er vanur að hafa völd, og getur talað með ákveðnum myndugleika. Hann vantaði í flesta aðra þátttakendurna og þeir virkuðu dálítið eins og kraðak í kringum hann. Uppstillinginn hentaði Bjarna semsagt afar vel.
Sigmundur Davíð fékk tækifæri til að svara fyrir sig í upphafi þáttar. Hann talaði þannig að þeir sem fylgja honum að málum styrktust í sannfæringu sinni – aðrir hafa varla skipt um skoðun. Einhvers staðar stóð að hann hefði lifað af. Sigmundur virðist líka hafa lifað af fund með þingmönnum Framsóknar í dag. Atburðarásin innan flokksins er þannig að það er mjög erfitt að skilja hvað er að gerast.
Svo er annað sem er sláandi – nefnilega að margt af þessu fólki gæti sem hægast verið í sama flokki. Hví er það að dreifast á öll þessi framboð?