fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Hið afar ráðleysislega búrkinibann

Egill Helgason
Miðvikudaginn 24. ágúst 2016 23:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Franska búrknibannið ber vott um skelfilegt ráðleysi. Myndir af lögreglumönnum að reka konur úr fötunum geta ekki haft annað en þveröfug áhrif, þær styrkja ekki frelsið heldur færa óvinum þess vopn í hendur. Myndirnar virka bæði afkáralegar og hneykslanlegar. Og með þessu er hlutunum snúið á hvolf, allt í einu er þetta tákn kúgunar orðið tákn um andóf gegn yfirvöldum sem ætla að beita kúgun – til þess að verja frelsið.

Við skulum ekki ganga að því gruflandi að hinn íslamski kvenbúningur er kúgunartæki og kúgunartákn. Bak við þetta er karla- og trúveldi sem stendur stuggur af kynhvöt kvenna og vill bæla hana, loka hana inni, eiga hana fyrir sig. Kannski má segja að druslugöngurnar sem eru farnar á Vesturlöndum séu hreinasta andstæða þessa?

Notkun fatnaðar af þessu tagi hefur færst mjög í aukana síðan í byltingunni í Íran 1978. Hún var algjör tímamótaviðburður og hratt af stað atburðarás sem enginn sá fyrir. Trú sem hafði virst á undanhaldi gerði rosalegt kombakk og það breiddist svo út um lönd sem menn höfðu ætlað að myndu stefna í frjálsræðisátt. Atburðunum í Íran er lýst frá sjónarhóli kvenna í teiknimyndinni Persepolis eftir Majane Satrapi sem upplifði þá sjálf. Konurnar í myndinni hafa ekki val um hvort þær klæðast þessum flíkum eða ekki.

 

 

Kemal Ataturk, leiðtogi Tyrkja, vildi koma þjóð sinni inn í nútímann, aðskilnaður hins veraldlega og hins túarlega var lykilatriði.   Konur áttu ekki að hylja sig með klútum, karlar skyldu skera skegg sitt. Bann við notkun höfuðbúnaðarins hefur tíðkast á ýmsum sviðum þjóðlífsins í Tyrklandi, en Erdogan hefur viljað gera breytingu þar á. Dómstólar stóðu lengi í vegi fyrir því og vísuðu í hin kemalísku lög. En það þótti marka tímamót í Tyrklandi þegar eiginkona Erdogans birtist með höfuðklút, það var tákn um breytta tíma.

Nú eru Tyrkir sem eru vestrænir í hátt uggandi – bíður það kvennanna í því landi að fara sömu leið og konurnar í Íran?

En tilraun til að beita lögregluvaldi gegn konum sem klæðast búrkini eða fatnaði af því taginu er dæmd til að snúast upp í andhverfu sína. Þetta undirstrikar fyrst og fremst hversu erfitt ástandið er í Frakklandi í aðdraganda forsetakosninga næsta vor. Þær kosningar geta orðið mjög afdrifaríkar, ekki bara fyrir Frakkland, heldur fyrir alla Evrópu. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur, búrkinibannið sýnir hversu mikil ringulreið er í frönsku samfélagi.

Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson skrifar þessa ágætu hugvekju á Facebook síðu sína.

Frjálslyndi er dyggð, umburðarlyndi gagnvart til dæmis konum sem vilja leyfa öðrum að sjá á sér hárið eða jafnvel axlirnar. Stjórnlyndi þegar kemur að lífi einstaklinga samræmist illa gildum okkar samfélags, til dæmis að hlutast til um trúarlíf annarra eða neysluvenjur á til dæmis kjöti, segjum svínakjöti. Umburðarlyndi, hæfileikinn til að leyfa öðru fólki að fara sínu fram, svo fremi það skaði ekki aðra eða sjálft sig fram úr máta, – þetta er ekki sérvestræn dyggð – og hvað þá sérkristileg – en þetta er engu að síður dyggð sem hefur mótað vestræn samfélög á umliðnum öldum, og ber að standa vörð um.

Það er ýmislegt athugavert við þetta búrkínibann, til dæmis það að höfð eru endaskipti á frjálslyndi og stjórnlyndi; þeir sem telja sig standa vörð um frelsi einstaklingsins vilja þvinga fólk til að klæða sig á frjálslegan máta sem gefi til kynna að viðkomandi einstaklingur lúti ekki boðvaldi um klæðaburð sinn. Í þessu er ósættanleg þversögn. Og þau öfl, sem vilja gera hár konunnar að blygðunarstað, axlir hennar, höku, eyru, kinnar hennar, allan líkama hennar að blyðgunarstað en konan skuli vera gangandi svört neind – þau öfl verða stikkfrí í þessari undarlegu umpólun, jafnvel baráttuöfl fyrir frelsi einstaklingsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun