fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Frakkland eftir Evrópumótið – forsetakosningar framundan (og aðeins um Þýskaland)

Egill Helgason
Fimmtudaginn 14. júlí 2016 18:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og ég skrifaði hér um daginn var það nokkuð fagnaðarefni að Evrópufótboltamótið í Frakklandi skyldi fara svo vel fram – áhorfendapallar á slíkum stórviðburði sem allur heimurinn fylgist með hljóta að hafa verið freistandi skotmark fyrir hryðjuverkamenn. Hryðjuverk á mótinu hefði getað skapað upplausn um alla Evrópu. Maður sér ekki mikið um þetta fjallað, þetta þykir kannski ekki sérlega fréttnæmt, öryggisgæsla á mótinu var gríðarleg – við vitum auðvitað minnst um hvað fór fram bak við tjöldin, var hulið sjónum áhorfenda.

Fjöldi fólks fór til Frakklands að fylgjast með mótinu – og kemur að því er virðist nokkuð ánægt heim. Það er gott á tíma þegar flestar fréttir sem berast frá Frakklandi eru heldur neikvæðar.

Almennt ríkir ekki sérstök gleði í Frakklandi um þessar mundir. Efnahagur landsins er staðnaður, líkt og víða um Evrópu, og atvinnuleysi meðal ungs fólks er hátt yfir tuttugu prósent. Undir yfirborðinu kraumar reiði og ótti, hræðileg hryðjuverk hafa skekið Frakkland – það er talið nær öruggt að Marine Le Pen, formaður hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar, komist í seinni umferð forsetakosninganna sem verða haldnar vorið 2017.

Ekki er vitað hver verður andstæðingur hennar, en núverandi forseti, Francois Hollande, á engan séns. Hann er smáður og lítilsvirtur meðal landa sinna, og nú bætist við lítið hneyksli sem ekki bætir ímynd hans – Hollande hefur orðið uppvís að því að hafa borgað hárgreiðslumanni sínum stórfé í hverjum mánuði, sköllóttur maðurinn. Hollande þykir ekki bara lélegur pólitíkus, hann er líka aðhlátursefni.

Valkostirnir í kosningunum eru ekki sérlega aðlaðandi, að minnsta kosti enn sem komið er. Hinn spillti Nicolas Sarkozy vill verða forseti á nýjan leik, en líklegri þykir Alain Juppé sem var forsætisráðherra 1995-1997. Juppé var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi vegna spillingarmála á sínum tíma og mátti þá ekki gegna opinberu embætti  um hríð. En hann nýtur talsverðra vinsælda og er ekki jafn umdeildur og Sarkozy.

Það verður að segjast eins og er að ekki er sérstakt nýnæmi að þessum körlum, þeir eru ekki líklegir til að bæta hið pólitíska andrúmsloft í Frakklandi. Undanfarið hefur nafn ungs manns, Emmanuels Macrons, verið nefnt, hann er fyrrverandi bankamaður sem gegnir nú embætti efnahagsmálaráðherra. Macron er fæddur 1977 – starfar í ríkisstjórn sem að nafninu til er sósíalísk, en vill þó hvorki láta flokka sig til hægri né vinstri. Hann hefur í kringum sig hreyfingu sem kallast En Marche og boðar sameiginlegt átak vinstri og hægri afla til að endurskapa Frakkland.

Af því mun varla veita. Eins og staðan er lítur út fyrir að stór hluti kjósenda muni ekki greiða atkvæði frambjóðenda sem þá langar að kjósa, heldur einungis til að koma í veg fyrir að Marine Le Pen verði forseti.

Í Þýskalandi verður líka kosið á næsta ári, þá um haustið. Ekki er enn vitað hvort Angela Merkel hyggst reyna að sitja áfram sem kanslari – þá gæti hún jafnað met Helmuts Kohl sem ríkti í 16 ár. Líklega myndi Merkel ná kjöri aftur. En staða hennar er veikari en áður. Stefna hennar í flóttamannamálum reyndist vera misheppnuð, Evrópusambandið er nú að reyna að losna við flóttamannavandann með vafasömum hrossakaupum við Tyrki, en aðhaldsstefna hennar og Wolfgangs Schäuble fjármálaráðherra hefur leikið efnahag margra Evrópuríkja grátt, sérstaklega landanna við Miðjarðarhaf.

Eins og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur margoft sagt er nauðsynlegt fyrir Evrópuríki að fara að eyða meiri peningum til að koma hjólum efnahagslífsins í gang. Aðhaldsstefna Merkels er slík að meira að segja innviðum Þýskalands hrakar mjög. Merkel er helsti leiðtogi Evrópu, en leiðtogahæfileikar hennar hafa verið lítt sýnilegir síðustu misserin.

 

French Minister of Economy Emmanuel Macron gestures as he speaks during a public meeting of his political movement "En Marche" at La Maison de la Mutualite in Paris on July 12, 2016. / AFP / PATRICK KOVARIK (Photo credit should read PATRICK KOVARIK/AFP/Getty Images)
Emmanuel Macron er nýstirni í frönskum stjórnmálum, aðeins 38 ára, og talinn líklegur til að bjóða sig fram til forseta. Francois Hollande á ekki séns, en hægrið býður upp á gamla jálka. Kosningarnar munu snúast mikið um að halda Marine Le Pen frá völdum.

 

Viðbót, kl. 23.30: Fáum tímum eftir að ég skrifa þennan pistil er framið hræðilegt hryðjuverk í Nice, á sjálfan Bastilludaginn. Maður fyllist hryllingi og sorg. Nei, hryðjuverk var ekki framið á Evrópumótinu, heldur þegar því er rétt nýlokið og það í þessari sólríku og elskulegu borg við Miðjarðarhafið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Rashford missir prófið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigrún og Andrea í framkvæmdastjórn Coca-Cola á Íslandi

Sigrún og Andrea í framkvæmdastjórn Coca-Cola á Íslandi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Helen skrifar: Uppreisnarhaf íslenskunnar

Helen skrifar: Uppreisnarhaf íslenskunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“