fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

17. maí og 17. júní

Egill Helgason
Þriðjudaginn 17. maí 2016 17:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

17-mai_Við Íslendingar horfum á Norðmenn halda upp á þjóðhátíðardag sinn, 17. maí, og spyrjum stundum af hverju þetta sé ekki svona hjá okkur?

Norðmenn veifa fánum og klæðast þjóðbúningum. Hjá okkur er 17. júní svo dauflegur að því er líkast að við viljum ekkert af honum vita.

Þetta er heldur ekkert nýtt. Ég man eftir þjóðhátíðardögum í æsku minni þar sem var búið að færa hátíðina inn í Laugardal og þangað var borgarbúum smalað til að hlusta á ræður og horfa á kúluvarp. Þetta kveikti náttúrlega ekki í neinum. Um kvöldið upphófst svo ógurlegt fyllerí í bænum, og var mest um það rætt í fjölmiðlum af atburðum dagsins.

En svo hætti fylleríið líka og nú er voða lítið að gerast á 17. júní. Ólíkt því sem er  á 17. maí hjá Norðmönnum.

Menn hafa gert því skóna að ein ástæðan sé sú að Íslendingum sé svo ógjarnt að flíka tilfinningum sínum – en það dugir varla, Norðmenn eru ekkert sérlega blóðheitir heldur. Fáninn hefur reyndar aldrei öðlast sama sess hjá okkur og hjá Norðurlandaþjóðunum. Þjóðsöngur Norðmanna Ja vi elsker dette landet er ólíkt hentugri til söngs en Ó Guð vors lands.

En kannski er skýringanna fremur að leita í sögunni. Noregur var hernuminn af Þjóðverjum í stríðinu. Þá var bannað að halda 17. maí hátíðlegan. Norðmenn unnu frelsi sitt aftur, sumpart með hetjulegri baráttu. Þannig varð dagurinn í raun þrunginn merkingu eftir stríðslokin.

17. júní okkar Íslendinga er dálítið öðruvísi. Við Íslendingar fengum endanlega sjálfstæði frá Danmörku þegar við vorum á hersvæði Bandaríkjanna. Bandaríkin urðu nokkurs konar ábekingur lýðveldisins – og fyrsta þjóðin til að viðurkenna Ísland sem lýðveldi.

Strax eftir stríðið hófust harðar deilur um veru Bandaríkjahers á Íslandi. Þær skiptu þjóðinni í tvær fylkingar og deilurnar voru oft á tíðum mjög hatrammar. Landráðabrigslin gengu á víxl. Margir græddu vel á veru hersins hér, þegar hann loks fór snerist umræðan aðallega um peninga.

Samstaðan um hvað hið unga lýðveldi skyldi standa fyrir var í raun mjög lítil; það þurfti að fara alla leið aftur til Jóns Sigurðssonar til að finna eitthvað sem sameinaði, þótt hver stjórnmálahreyfing túlkaði Jón eftir sínu höfði.

Þorskastríðin hefur nokkuð óvænt borið á góma í aðdraganda forsetakosninga. Þeim hefur stundum verið haldið á lofti sem efni í hetjusögn þjóðar, en í raun duga þau frekar skammt. Þegar Bretar koma með herskip inn í landhelgina sem Íslendingar höfðu tekið sér voru þeir í raun að viðurkenna veikleika sinn. Þetta var sýndarmennska til að friða almenningsálit heima. Þetta var auðvitað ekki stríð í eiginlegri merkingu, eins og bent hefur verið á, heldur milliríkjadeila sem ekki var hægt að vinna með vopnum.

Þorskastríðin voru leidd til lykta eftir diplómatískum leiðum og það tengdist að miklu leyti því alþjóðasamstarfi sem Íslendingar tóku þátt í.  Mesta hetjan var kannski hæglátur sendierindreki, Hans G. Andersen, einn helsti sérfræðingur heimsins í hafréttarmálum. Nafni hans er ekki mikið haldið á lofti, hann er varla ekki nógu spennandi til þess, en enginn efast um framlag hans.

Það gerir þorskastríðin líka að sumu leyti ónothæf sem hetjusögn þjóðar að nokkrum árum eftir að þessari baráttu lauk var óveiddur fiskurinn við Íslandsstrendur afhentur fámennum hópi nánast til eignar, ekki bara til að veiða, heldur líka til að veðsetja. Hið sama var svo gert með makrílinn, tegund sem synti hingað óvænt frá Noregi, mörgum árum síðar.

En samkvæmt leiðara Morgunblaðsins í dag – sem er skrifaður af óþekktum höfundi –  eru þetta sjálfsagt mjög óþjóðholl skrif. Þar er boðuð ritun sögu að hætti Jóns Aðils og Jónasar frá Hriflu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“